Kveður safnið með trega eftir uppsögn

Guðrún og Safnahúsið.
Guðrún og Safnahúsið.

„Ég lít á uppsögnina sem algjörlega skýran vilja sveitarfélagsins til að losna við mig úr starfi, það getur ekki verið skýrara. Það eru þá skilaboð sem ég hef meðtekið og hef til viðmiðunar hvað varðar mína framtíð, en mér þykir þetta leitt því mér þykir vænt um mitt sveitarfélag,“ segir Guðrún Jónsdóttir.

Guðrún hafði gegnt starfi forstöðumanns Safnahússins í Borgarfirði síðastliðin 15 ár þegar henni var sagt upp störfum á þriðjudag, í kjölfar þess að hún lagði fram eineltiskvörtun á hendur sveitarstjóra Borgarbyggðar vegna óréttmætrar framkomu, að því er hún greinir sjálf frá.

Segir eineltiskvörtunina ekki vera meginmálið

Guðrún segist ekki taka afstöðu til þeirrar færslu sem Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, skrifaði á Facebook-síðu sinni, þar sem hún hafnar ásökunum um einelti.

„Ég tek ekki afstöðu til þess vegna þess að það er ekki búið að fjalla efnislega um ástæður eineltiskvörtunarinnar og mér finnst hún í rauninni ekki vera meginmálið í þessu, heldur að öll stjórnsýslan við það sem er undanfari þessarar uppsagnar minnar, hjá stofnun sem að á sér svo marga hollvini, hefur verið svo gölluð að það er það sem að lætur mér líða fyrst og fremst illa.“

Hún segir aðfarirnar hafa verið ranglátar, skrýtnar og einkennilegar en að kvörtunin byggist aðallega á því að henni hafi lengi liðið illa í starfi sínu vegna samskipta við yfirmann sinn, sem hún segist engu að síður óska alls hins besta.

Safnahúsið. Þar hefur Guðrún starfað sem forstöðumaður í fimmtán ár.
Safnahúsið. Þar hefur Guðrún starfað sem forstöðumaður í fimmtán ár.

Sér eftir starfi sínu

„Þetta er búinn að vera ofboðslega erfiður tími og þá fyrst og fremst þetta óréttlæti sem felst í því að ég er búin að leggja fram eineltiskvörtun og höfða dómsmál og á sama tíma er mér sagt upp, á meðan ekki er búið að fjalla um þetta tvennt og engin niðurstaða fengin í því,“ segir Guðrún.

„Ég sé eftir starfinu mínu og samskiptunum mínum við allt það góða fólk sem hefur sótt þá menningu sem er að finna í Safnahúsi. Þetta hús er gríðarlega mikilvægt menningarhús.“

Samskiptin einkennileg

Guðrún segist vera hissa á því hvernig hafi verið staðið að málum og segir ferlið og samskipti sveitarfélagsins við hana vera einkennilegt frá A til Ö.

Guðrúnu barst áminning í mars á þessu ári frá sveitarfélaginu og segir hana hafa byggst á einkennilegum grunni. Erfið mannauðsmál hafi valdið því að hún hafi fengið áminninguna.

„Fyrst í lok janúar þá fékk ég boðun um áminningu, þ.e.a.s. að það væri verið að íhuga að senda mér áminningu. Ég fékk auðvitað djúpstætt áfall, ég er orðin 63 ára gömul og aldrei á mínum starfsferli hef ég fengið áminningu fyrir eitthvað. Það er frekar að uppsagnarbréfin sem ég hef skrifað hafi verið rifin heldur en hitt.

Svo fékk ég áminningu sem var enn meira áfall sem gerist í mars og svo enn og aftur þriðja áfallið þegar mér er boðsend af stefnuvotti tilkynning um að uppsögn sé í farvatninu.

Þetta er vont fyrir manneskju að ganga í gegnum sem vinnur í starfinu sínu með hugsjón. Við safnmenn við eigum það sameiginlegt að við erum ekki í þessu starfi út af laununum, við berum djúpstæða virðingu fyrir starfinu okkar.“

Guðrún segir það heilagt að starfa í húsi sem varðveitir …
Guðrún segir það heilagt að starfa í húsi sem varðveitir menningu heils héraðs og minningu fólksins sem þar hefur búið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gengur burt með góðar minningar

Guðrún segir það heilagt að starfa í húsi sem varðveitir menningu heils héraðs og minningu fólksins sem þar hefur búið. Hún segir að ekki megi hrófla við slíkri starfsemi.

„Minni héraðs er í einni stofnun, þannig að sveitarstjórn verður, og ég veit að hún mun gera sitt besta, til þess að hlúa að þessu starfi áfram. Þau þurfa að ráða einhvern góðan í staðinn fyrir mig svo að stofnunin fái að blómstra áfram.“

„Ég hef starfað þarna í 15 ár og á þeim tíma hef ég hitt alveg gríðarlega marga sem hafa gefið mér þessar góðu minningar sem ég geng með í burtu frá þessari stofnun.“

Það er álit Guðrúnar að safnastarf á Íslandi standi á krossgötum og að mál hennar sé gott dæmi um það. Hún segir starfið snerta hjörtu þeirra sem þarna fara með minningar fólks og að vernda verði starfsemina svo hún verði ekki fyrir skakkaföllum.

„Þegar safnstjóri hættir, sem er búinn að vera lengi og í rauninni búinn að vera í stífu námi um sitt safnsvæði allan sinn starfstíma, þá fer gríðarleg þekking út úr húsinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka