Geir Gestsson, verjandi Murats Selivrada, gerir mjög alvarlegar athugasemdir við að skýrsla um rannsóknarhætti lögreglu í Rauðagerðismálinu hafi verið lögð fram í málinu fyrir héraðsdómi.
Eins og rakið hefur verið í fréttum mbl.is komu fram í umræddri greinargerð ósannaðar kenningar lögreglu um málið, óháð framburði sakborninga, sem að hluta til innihalda lögfræðilegar vangaveltur sem skrifaðar voru af ólöglærðum rannsóknarlögreglumanni.
Geir segir að ákæra á hendur Murats byggi öll á greinargerð þessarar skýrslu, þar sem ósannaðar kenningar koma fram.
Segir hann einnig að sú staðreynd að lögregla hafi tekið greinargerðina saman, með ósönnuðum kenningum sínum, og að ákæruvald hafi lagt þetta fram sem gagn í málinu fyrir dómi sé mjög ámælisverð.
Þegar Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, mætti fyrir dómara síðasta fimmtudag til að gefa skýrslu í Rauðagerðismálinu, var hann fámáll um umrædda skýrslu og greinargerð hennar.
Murat, sem er frá Albaníu, er gefið að sök að hafa bent Claudiu Sofiu Coelho Carvalho á bíl sem brotaþoli átti. Claudia átti síðan að hafa bent Angjelin á bílinn en Angjelin hefur játað að hafa orðið brotaþola, Armando Beqirai, að bana.
Raunar segir verjandi Murats að bæði Angjelin og Claudia hafi hrakið ósönnuðu kenninguna um að Murat hafi nokkurn tímann veitt þessi fyrirmæli um að benda á nokkurn bíl. Þetta eiga þau að hafa sagt í skýrslutöku, á meðan þau voru bæði í gæsluvarðhaldi, þar sem þau gátu ekki borið saman bækur sínar og samræmt frásögn sína.
Geir tók dæmi í málflutningi sínum og bað viðstadda að ímynda sér að Íslendingur væri ákærður fyrir manndráp í Albaníu. Hann bað fólk að ímynda sér að albanska lögreglan og albanskt ákæruvald hefðu lagt fram ósannaðar kenningar um aðild Íslendingsins að morðmálinu, sem dómur í málinu ætti að grundvallast af.
Sagði hann að Íslendingar yrðu fljótir að mótmæla slíkri meðferð og segja að Albanía væri ekki réttarríki. Murat upplifir málið einmitt svo, að sögn Geirs.
Geir gerði, eins og fyrr segir, miklar athugasemdir við framlagningu þessarar skýrslu, sem inniheldur ósannaðar kenningar lögreglu, og var honum ansi heitt í hamsi við málflutning sinn.
Skýrslan umrædda og greinargerð hennar eru ekki svokölluð frumgögn í málinu. Eins og Geir útskýrði fyrir mbl.is, við upphaf aðalmeðferðar á mánudag í síðustu viku, verður dómur ekki felldur í sakamáli nema hann grundvallist af frumgögnum.
Segir Geir að það væri „stórslys“ ef sekt Murats myndi grundvallast á þessari greinargerð í skýrslu lögreglu um eigin rannsóknarhætti. Koma yrði í veg fyrir slíkt stórslys, þó ekki væri nema til þess að skapa ekki dómafordæmi um slíkt réttarfar.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari andmælti því sem Geir Gestsson, verjandi Murats, sagði. Sérstaklega gerði hún athugasemd við orð hans um að ákæra á hendur Murat byggi á greinargerð umræddrar lögregluskýrslu.
Segir hún að hún gefi út ákæruna og að það sé gert á grundvelli málsgagna.