Fjárhagsstaða fjögurra af fimm stærstu sveitarfélögum landsins hefur versnað frá í fyrra samkvæmt fjárhagsuppgjöri sem þau hafa birt fyrir fyrri hluta þessa árs. Halli á rekstri þessara sveitarfélaga nær tvöfaldaðist milli ára og fór úr 5,6 milljörðum kr. í fyrra í tíu milljarða á fyrri helmingi yfirstandandi árs.
Þetta kemur fram í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjárhagsuppgjöri Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Akureyrarbæjar en í þeim bjuggu rösklega 221 þúsund manns, eða tæplega 60% landsmanna.
„Halli var á rekstri allra sveitarfélaganna í heild sem nemur 8,9% af tekjum, samanborið við 5,6% á sama tíma í fyrra. Mestur var hallinn á rekstri Reykjavíkurborgar, 10,4% af tekjum,“ segir í samantektinni.
Bent er á að hafa beri í huga að fyrstu sóttvarnaaðgerðirnar tóku gildi í mars í fyrra og hafa því einungis áhrif á hluta af fyrstu sex mánuðum síðasta árs en margvíslegar takmarkanir vegna sóttvarna voru í gildi á fyrri hluta yfirstandandi árs sem kölluðu á aukin útgjöld.
Fram kemur að uppgjör þessara sveitarfélaga séu til marks um erfiða rekstrarstöðu og aukinn halla sveitarfélaga, þrátt fyrir að tekjur þeirra séu 11,8% hærri en í fyrra.
Útgjöld sveitarfélaganna fjögurra hækkuðu um 13,7% á fyrri hluta ársins, þar af hækkuðu laun og tengd gjöld um 16,3%. Í ljós kemur að launakostnaður hækkaði mest hjá Hafnarfjarðarbæ, um 18,1%, en minnst hjá Akureyrarbæ, um 7,5%.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.