Orðræða um gylliboð sé í raun ábyrg stjórnsýsla

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú gagnrýni sem sett hefur verið fram vegna stækkunar Vatnajökulsþjóðgarðs í Þingeyjarsveit stenst enga skoðun að mati Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Segir hann að orðræða um gylliboð í formi stöðugilda í viðkomandi sveitarfélögum sé ábyrg stjórnsýsla en ekki tengt kosningum. Þá auki friðlýsingin völd heimamanna en minnki þau ekki, þvert á gagnrýnisraddir.

Jón Páll Baldvinsson, formaður FETAR, hagsmunasamtaka fyr­ir­tækja sem starfa við heils­árs­ferðaþjón­ustu á há­lendi og lág­lendi, sagði í samtali við mbl.is í fyrradag að samtökin og önnur hagsmuna- og útivistarsamtök væru að búa sig undir kæru vegna stækkunarinnar þar sem ekki hefði verið farið að lögum um hvernig stækka eigi þjóðgarðinn.

Snýst um friðlýsingu á Bárðdælaafrétti austari

Um er að ræða friðlýsingu sem sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykki 9. september á svæði sem er skilgreint sem Bárðdælaafréttur austari og verður það hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Sagði Jón meðal annars að umhverfisráðherra hefði farið fram með gylliboðum um stöðugildi í nefnd­um sem koma að mál­efn­um þjóðgarðsins og einnig lag­fær­ing­ar á veg­um á há­lend­inu sem hann hefði ekki umboð að lofa. Þá gagnrýndi Jón að með þessari stækkun væri verið að færa lokavald varðandi umrætt landsvæði frá sveitarfélaginu til ráðherra og að ráðherra gæti skipt út nefndarmönnum í svæðisráði að vild. Þetta færði vald varðandi virkj­ana­mál, ferðaf­rels­is­mál, nátt­úru­vernd­ar­mál og hags­muni sauðfjár­bænda sem reka fé sitt á af­rétt frá heimamönnum til ráðherra. Sagði Jón að friðlýsing svæðisins fæli í sér „grund­vall­ar­breyt­ingu á lýðræðis­leg­um stjórn­sýslu­hátt­um á land­inu okk­ar.“

Jón Páll Baldvinsson formaður FETAR er ósáttur við framferði umhverfisráðuneytisins …
Jón Páll Baldvinsson formaður FETAR er ósáttur við framferði umhverfisráðuneytisins þegar kemur að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Samsett mynd

„Stenst enga skoðun

Guðmundur Ingi segir þessi orð Jóns séu full af rangfærslum sem standist ekki skoðun. „Sú gagnrýni að ekki sé farið að lögum varðandi stækkun Vatnajökulsþjóðgarð stenst enga skoðun. Hér hefur í einu og öllu verið farið að lögum. Í lögum um þjóðgarðinn þá kemur fram að það sé heimilt að friðlýsa landsvæði sem hluta af þjóðgarði ef fyrir liggur samþykki landeiganda og viðkomandi sveitarfélags, hvorra tveggja liggur fyrir í þessu tilfelli. Sveitarfélagið hefur samþykkt friðlýsinguna og landsvæðið er hluti af þjóðlendu og heyrir undir forsætisráðuneytið og samþykki þess liggur fyrir,“ segir Guðmundur Ingi.

Þá segir hann rangfærslur í fullyrðingum Jóns um að ráðherra geti gengið gegn ákvörðunum stjórnar sem komi fram í stjórnar- og verndaráætlun. Segir hann að ráðherra þurfi að staðfesta stjórnar- og verndaráætlun, en geti ekki breytt henni efnislega. Einnig geti ráðherra ekki skipt út fulltrúum í svæðisráði, t.d. ef honum hugnast ekki málflutningur nefndarmanna. Segir Guðmundur Ingi að sveitarfélögin og önnur samtök ráði tilnefningum í ráðin.

Segir aukin völd færð til heimamanna

Varðandi að völd séu að færast frá heimamönnum segir Guðmundur Ingi það ekki rétt. „Þarna er því miður talað af vanþekkingu.“ Hann segir reyndar rétt að horfa til þess að þar sem um þjóðlendu sé að ræða sé alveg ljóst að sveitarfélagið hafi ekki óskorðað vald um svæðið. „Forsætisráðuneytið fer með hlutverk landeiganda þegar um þjóðlendu utan þjóðgarðs er að ræða og þarf að samþykkja ráðstöfun landsins.“

Guðmundur Ingi segir að með því að svæðið verði að þjóðgarði séu hins vegar aukin völd færð til heimamanna. „Má í raun segja að við séum að setja stýringu landsins í enn lýðræðislegra ferli en það er í dag, því sveitarfélögin og fulltrúar umhverfis- og útivistarsamtaka og ferðaþjónustu sitja í svæðisráði sem fjallar um þær áætlanir sem ná til þessa svæðis þjóðgarðsins. Það er frekar verið að auka lýðræðislega aðkomu að ákvarðanatöku frekar en það sem Jón segir,“ bætir hann við.

Svæðið sem bætist við þjóðgarðinn nær frá sveitarfélagamörkum Þingeyjarsveitar og …
Svæðið sem bætist við þjóðgarðinn nær frá sveitarfélagamörkum Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps og langleiðina að Skjálfandafljóti. Kort/mbl.is

Engin afstaða til mögulegra virkjanaáforma

Spurður sérstaklega út í hvort stækkunin hafi áhrif á mögulega virkjanakosti, en efri hluti Skjálfandafljóts, þar sem umrætt stækkunarsvæði nær til, er í biðflokk rammaáætlunar, segir Guðmundur Ingi að svo sé ekki. Skjálfandafljótið og mögulegt virkjanasvæði falli undir rammaáætlun og friðlýsingin nái ekki til þess svæðis. „Þetta er ekki hafa áhrif þar. Það er bara verið að rugla saman tveimur hlutum,“ segir hann og bætir við: „Við erum ekki að friðlýsa svæði sem rammaáætlunin nær yfir, við getum það ekki.“ Spurður hvort að friðlýsingin geti þó haft áhrif á framkvæmdasvæði virkjana segir hann svo ekki vera og að framkvæmdasvæði mögulegra virkjana falli undir rammaáætlun.

Framhaldsvinna eftir hálendisfrumvarpið í vor

Spurður út í ástæðu þess að nú hafi tvisvar á skömmum tíma fyrir kosningar komið til stækkunarumræðu um Vatnajökulsþjóðgarð þegar skammt sé til kosninga segir Guðmundur Ingi að málið eigi sér langan aðdraganda, enda hafi verið unnið að stofnun hálendisþjóðgarðs frá árinu 2016 og staðan núna sé í raun framhald á frumvarp um hálendisþjóðgarðinn sem fór ekki í gegnum þingið í vor.

„Í framhaldinu hafði ég samband við nokkur sveitarfélög til þess að kanna hug þeirra til stækkunar, sem ég tel eðlilegt í framhaldi af því að hálendisþjóðgarðurinn varð ekki að veruleika núna,“ segir hann. Þá þurfi að hafa að leiðarljósi þegar að stækkun komi að fjármagn þurfi að fylgja með til að geta sinnt stærra landsvæði. „Það er ekkert óeðlilegt við það heldur er það bara jákvætt og okkar hlutverk að láta aukið fjármagn fylgja svo Vatnajökulsþjóðgarður geti framfylgt sínum skyldum,“ bætir Guðmundur Ingi við.

Tvö sveitarfélög lýstu áhuga á stækkun

Um er að ræða sveitarfélögin Ásahrepp, Múlaþing, Skaftárhrepp og Þingeyjarsveit, en þau eiga öll landsvæði að þjóðgarðinum. Guðmundur Ingi segir að Þingeyjarsveit og Skaftárhreppur hafi lýst áhuga á að skoða stækkun og unnið hafi verið að þeim tillögum. „Í Skaftárhreppi niðurstaðan að ræða málið frekar og það er enn þá í ferli. Í Þingeyjarsveit var niðurstaðan að klára hlut í því sem við vorum að ræða og halda áfram með seinni hlutann. Ásahreppur lýsti ekki áhuga á að fara í þetta að sinni,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann bendir á að fjármunirnir sem horft sé til vegna stækkunar þjóðgarðsins sé ekki nýtt fjármagn sem sé verið að lofa, heldur sé horft til þeirra fjármuna sem útdeilt hefur verið í fimm ára fjármálaáætlun sem hafi verið samþykkt á þingi. Þá hafi stækkunum áður fylgt aukið fjármagn. Nefnir hann sem dæmi þegar þjóðgarðurinn var stækkaður við Herðubreið og vestan við Hana. „Ég reyni alltaf að tryggja fjármagn þeirra verkefna sem ég set í gang. Það að segja að eitthvað sé óeðlilegt við það, hvort sem það er vika í kosningar eða ekki, þetta er bara það sem ég hef verið að gera allt kjörtímabilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert