Sala á jólabjór hefst í Vínbúðunum 4. nóvember. Von er á um 130 tegundum, sem er nokkur fjölgun frá því í fyrra þegar þær voru um 110 talsins.
Sölunni á jólabjórnum var flýtt í fyrra til 5. nóvember eftir að hún hafði jafnan hafist í kringum 15. sama mánaðar.
„Þetta [salan] byrjaði á sínum tíma í Fríhöfninni í byrjun nóvember og við vorum með þetta fimmtánda. Í kjölfarið á því að við fengum fyrirspurnir og beiðnir var ákveðið að flýta þessu í fyrra og við munum halda því,” segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.
Á síðasta ári, frá 2020 til 2021, seldust 1.180 þúsund lítrar af jólabjór en árið á undan, 2019–2020, var salan 749 þúsund lítrar. Sigrún Ósk segir þessa miklu aukningu á magni eflaust mega rekja til sérstaks ástands í samfélaginu vegna takmarkana í tengslum við Covid-19. Einnig hafi talsvert fleiri jólabjórar verið til sölu á jólatímabilinu en árið 2019.
Þangað til jólabjórinn kemur í verslanir 4. nóvember verður októberbjór í sölu í tilefni af Októberfest til 31. október. Greint var frá því á vefsíðu Vínbúðarinnar í síðustu viku að von væri á 21 tegund og hafa þær aldrei verið fleiri. Þar af eru fimm innfluttar og sextán framleiddar á Íslandi. Tegundin sem verið hefur vinsælust, Löwenbrau, er ekki í boði þar sem hætt var við framleiðslu hennar í ár.