Unnið við krefjandi aðstæður

Ljósmynd/Landsvirkjun

Landsvirkjun áformar útboð á verkframkvæmd vegna uppsetningar á hrunvarnargirðingum á Kárahnjúkum sumarið 2022.

Framkvæmdin snýr að uppsetningu á hrunvarnargirðingum til að hefta hrun grjóts úr Fremri-Kárahnjúk. Þá er einnig talsverð jarðvinna við að gera skeringu til að búa til stall (bermu) á bak við girðingarnar til þjónustu á líftíma mannvirkisins.

Verkið er enn í hönnun og því liggja ekki allar forsendur þess fyrir enn sem komið er. Verkið verður hins vegar unnið við krefjandi aðstæður, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Landsvirkjunar. Það verður unnið í miklum bratta og þar sem ekki er áætlaður aðkomuslóði að uppsetningarstaðnum þarf að flytja aðföng að með krana eða þyrlu. Mikil áhersla verður lögð á öryggismál. „Verkið mun því krefjast sérhæfðrar þekkingar og verða kröfur útboðs í samræmi við það,“ segir í fréttinni.

Skoðunarferð fyrir bjóðendur

Þar sem vetraraðstæður á svæðinu eru krefjandi er einungis mögulegt að skoða verkstaðinn og kynna sér aðstæður að sumri eða hausti og því hefur Landsvirkjun boðað til skoðunarferðar fyrir væntanlega bjóðendur 28. september nk. Vegna eðlis framkvæmdarinnar og flækjustigs hennar hvetur Landsvirkjun bjóðendur eindregið til að mæta og skoða aðstæður á staðnum hafi þeir áhuga á að bjóða í verkið.

Miðað er við að útboðsgögn verði tilbúin til afhendingar fyrir lok árs 2021. Útboðið verður auglýst sérstaklega þegar gögnin eru tilbúin.

„Grjóthrun hefur ekki verið vandamál vegna þess að gripið hefur verið til aðgerða til að koma í veg fyrir það og því hvorki menn né mannvirki í hættu,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Verkefnið núna snýst um að hemja og/eða fanga laust grjót sem hrynur úr Fremri-Kárahnjúk niður á aðkomuveg að stíflumannvirkjum.

Á framkvæmdatímanum, þ.e. við byggingu stíflumannvirkjanna, voru settar upp hrunvarnargirðingar sem gegndu þessu hlutverki, en þær eru nú komnar á tíma. Hrun sem þetta orsakast af náttúrulegum aðstæðum, frostsprengdu grjóti og rofi sem verður við leysingar.

Síðastliðið sumar og sumarið 2017 voru starfsmenn svissneska verktakans Gasser að störfum fyrir austan, við að tryggja laust berg ofar í Kárahnjúknum. Það var m.a. til að tryggja öryggi við það verk sem nú tekur við, þ.e. næsta sumar, sem er fyrst og fremst endurnýjun og um leið endurhönnun á hrunvarnargirðingum, segir Ragnhildur.

Girðingarnar 150 metrar

Í verkinu felst m.a. uppsetning á um 150 lengdarmetrum af hrunvarnargirðingum (5 metra háar) í samræmi við kröfur og leiðbeiningar framleiðanda ásamt allri tengdri jarðvinnu og undirstöðuvinnu fyrir mannvirkið (steyptar undirstöður, borun og bergboltun o.fl.).

Jökulsá á Dal er stífluð við Fremri-Kárahnjúk og er það jafnframt langstærsta stífla Kárahnjúkavirkjunar. Stíflan er 700 metra löng og 198 metra há. Hún er meðal hinna stærstu í heimi af þessari gerð.

Gerð hennar hófst árið 2002 og virkjunin var gangsett 2007.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert