Seðlabankastjóri efins um tillögur Viðreisnar um festingu við evruna

Seðlabankastjóri telur að hugmyndir um að festa íslensku krónuna við evruna séu „að einhverju leyti vanhugsaðar“ og kunni að leiða til hærri stýrivaxta. 

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var gestur á Reikningsskiladegi Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) í liðinni viku, en hann tók við spurningum úr sal að loknu erindi sínu um skipulag og starfsemi Seðlabankans. Þar var hann m.a. spurður um það stefnumið Viðreisnar að festa gengi krónunnar við evru.

Ásgeir minnti á að árið 1989 hefði krónan verið tengd við ECU, körfu gjaldmiðla, sem um aldamót var skipt út fyrir evruna. Þetta fyrirkomulag hefði gengið upp meðan fjármagnshöft voru í gildi í landinu, en nú væru aðstæður allt aðrar.

„Það er í rauninni ómögulegt fyrir Seðlabankann að halda fastgengi við evru,“ sagði Ásgeir og bætti við að yrði sú stefna ofan á þyrfti hann að leggja allan gjaldeyrisforðann að veði til að viðhalda fastgenginu og öll önnur sjónarmið efnahagslífs og peningastefnu verði að víkja.

Algert og órofa samkomulag þyrfti við verkalýðsfélögin um að krefjast ekki meiri launahækkanir en gerðist í Evrópusambandinu. Einnig yrðu ríkisfjármál að miðast við að að halda jafnvægi á genginu öðru fremur.

Þrátt fyrir að þetta tækist væri óvíst að fastgengisstefnan héldi velli, meðal annars vegna hættunnar á að spákaupmenn réðust á gjaldmiðilinn.

Gengisfesting Viðreisnar

Viðreisn leggur til í kosningastefnuskrá sinni að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum, sem meðal annars felist í gagnkvæmum gengisvörnum Seðlabanka Evrópu og Seðlabanka Íslands um að hvor sé skuldbundinn til þess að koma hinum til aðstoðar komist gjaldmiðlarnir í kröggur. Flokkurinn segir að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 72 þúsund krónur á mánuði á komandi kjörtímabili yrði krónan fest við evru, vegna lægri vaxta, lægra vöruverðs og minni þjónustukostnaðar sem fylgdu þeirri festingunni við Evrusvæðið.

„Það er alls ekki víst að við fengjum sömu vexti,“ varar seðlabankastjóri við. „Við gætum fengið hærri vexti, við myndum þurfa að hækka vexti til þess að verja gengið,“ bætir dr. Ásgeir við. „Ég held að það sé að einhverju leyti vanhugsað að fara úr verðbólgumarkmiði sem við erum búin að vera með í 20 ár yfir í [gengisfestingu við evru].“

Seðlabankastjóri tók þó fram að finna mætti rök fyrir upptöku evrunnar. Þannig fengist aðild að Evrópusambandinu, sem veitti Íslendingum tiltekin réttindi en einnig skyldur. Hins vegar yrði ekki hægt að hreyfa við vöxtum hérlendis við svo búið.

„Þetta eru bara tvær leiðir: evran, og þá innganga í ESB, eða þá að reka sjálfstæða peningastefnu þar sem við verðum áfram með gjaldmiðilinn okkar.“

Danir og Þjóðverjar

Viðreisn rökstyður hugmyndina með því að festing krónunnar við evruna yrði hliðstæð gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana, sem viðhaldið hafa fastgengi við evruna frá 1999, en upptöku evrunnar í Danmörku var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu um aldamótin.

Seðlabankastjóri minnti á að fyrirkomulag Dana hvíldi á samningum við ESB og innanlandssamkomulagi um launastig og fjárlagastefnu, sem taki mið af gjaldeyrisstefnunni. „Það veit enginn í Danmörku hvað seðlabankastjórinn heitir. Það er fjármálaráðherrann sem ræður öllu því hann ákveður fjárlögin og hefur þau tæki sem þarf til að bregðast við.“ 

Þá var Ásgeir spurður frekar um upptöku evru og hvort hún gæti ekki komið í veg fyrir hvatavandamál við launaákvarðanir, þar sem ekki væri lengur hægt að styðja sig við peningastefnu til að bregðast við óhóflegum launahækkunum. Ásgeir tók undir að það væri ein helsta röksemdin fyrir upptöku evru, í raun væri þá verið að „knýja íslensku þjóðina að taka ábyrgð á sjálfri sér“.

Seðlabankastjóri rifjaði upp að fyrrgreint hvatavandamál hefði leitt til óðaverðbólgu á Íslandi á liðinni öld, þegar atvinnurekendur hafi „gefist upp á að rífast við verkalýðsfélögin“, sem leitt hefði til vítahrings víxlhækkana kaupgjalds og verðlags, auk tilheyrandi gengisfellinga. 

Yrði evran tekin upp og um leið efnahagsstefna í takt við það sem gerist í Evrópu þyrftu laun íslenskra launþegar að taka mið af launastiginu í Þýskalandi, sem er ráðandi ríki í evrusamstarfinu. „Sem er mjög erfið viðmiðun því þeir eru framleiðnir andskotar.“ Ef laun á Íslandi yrðu hækkuð meira en annars staðar, líkt og verið hefur, bæru íslensk fyrirtæki meiri kostnað en erlendir keppinautar, samkeppnishæfnin minnkaði og viðskiptahallinn ykist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert