Heilbrigðisráðherra hefur falið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að annast á landsvísu greiningar ADHD hjá fullorðnum. Heilsugæslan mun annast þjónustuna í samvinnu við heilsugæslu og geðheilsuteymi í heilbrigðisumdæmum um allt land.
Í tilkynningu frá stjórnarráðinu kemur fram að þess sé vænst að með breyttu skipulagi takist að stytta bið eftir greiningum og stuðla að samfelldri þjónustu við einstaklinga með ADHD á viðeigandi þjónustustigi.
ADHD greiningarteymi fyrir fullorðna verður áfram starfrækt á Landspítala en þjónusta þess verður bundin við einstaklinga með fjölþættan vanda sem þurfa á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu í samræmi við skilgreiningu þriðja stigs heilbrigðisþjónustu í lögum.
Ákvörðun um breytt fyrirkomulag ADHD greininga og meðferðar fullorðinna byggist á ýtarlegri greiningarvinnu í samstarfi ráðuneytisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala og samráði við ADHD samtökin
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist í tilkynningunni leggja áherslu á að með breytingunni sé unnið í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu um að veita fólki þjónustu á réttu þjónustustigi og íþyngja ekki efsta stigi þjónustukeðjunnar með verkefnum sem betur eiga heima á fyrsta eða öðru þjónustustigi heilbrigðisþjónustunnar