Íbúðalánasjóður hafði betur gegn hjónum í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, í máli er sneri að greiðslu svokallaðra uppgreiðslugjalda.
Hjónin kröfðu Íbúðalánasjóð, sem heitir ÍL-sjóður í dag, um 2.744.856 krónur. Héraðsdómur sýknaði sjóðinn af kröfum hjónanna.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi uppgreiðslugjöld ólögleg í nóvember í fyrra en Hæstiréttur sneri þeim dómi við fyrr á þessu ári.
Uppgreiðslugjöld eru þau gjöld sem Íbúðalánasjóður krafði lántakendur um þegar þeir greiddu upp eða inn á lán sín. Mat héraðsdóms var að slík gjaldtaka stæðist lög.
Í maí á þessu ári höfðu um 5,2 milljarðar króna verið innheimtir í uppgreiðsluþóknanir og ógjaldfallin uppgreiðslugjöld virkra lána stóðu í um 3 milljörðum til viðbótar. Málið allt nær til um 8.500 lántakenda og gæti það haf tugmilljarða króna afleiðingar fyrir ríkið ef einhvern veginn tekst að færa sönnur fyrir því að uppgreiðslugjöld séu ólögleg.