Sigurður kærður til lögreglu, persónuverndar og LMFÍ

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir hefur kært hæstaréttarlögmanninn Sigurð G. Guðjónsson til lögreglu, Persónuverndar og Úrskurðarnefndar lögmanna. Þórhildur kom fram í viðtali hjá RÚV í síðasta mánuði og greindi frá kynferðisofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hálfu Kolbeins Sigþórssonar landsliðsmanns. 

Fram kemur á vef RÚV að kæran varði Facebook-færslu Sigurðar frá því fyrr í mánuðinum þar sem hann birti myndir af rannsóknargögnum úr sakamálinu, sem síðar var fellt niður eftir að Kolbeinn greiddi m.a. Þórhildi miskabætur og játaði sök.

Vissi ekki af kærunum

Í samtali við mbl.is segist Sigurður ekki hafa vitað af umræddum kærum. Hann viti þar af leiðandi ekki að hverju þær snúa. 

Í frétt RÚV er vísað til kæru Þórhildar þar sem fram kemur m.a. að Sigurður hafi með færslu sinni misfarið með persónuupplýsingar og rannsóknargögn og brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar.

Þá kemur einnig fram í kæru til úrskurðarnefndar LMFÍ að færsla Sigurðar og birting gagnanna hafi haft þann tilgang að niðurlægja Þórhildi og villa um fyrir almenningi að hún hafi logið til um málavexti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert