Fjöldi viðurkenninga fyrir snyrtileika var veittur við hátíðlega athöfn í Hafnarfirði í gær. Heiðursverðlaun hlaut Krýsuvíkurkirkja sem endursmíðuð var í upprunalegri mynd og komið fyrir á sínum stað í október 2020.
Tvö fyrirtæki á hafnarsvæðinu, Hafrannsóknarstofnun og arkitektastofan Batteríið, fengu viðurkenningu fyrir snyrtileika auk þess sem Lóuás í Áslandinu var valin stjörnugata ársins.
Krýsuvíkurkirkja er í dag í eigu og umsjón vinafélags kirkjunnar. Í kjölfar kirkjubrunans í upphafi árs 2010 var vinafélag Krýsuvíkur stofnað með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd.
Tvö fyrirtæki þykja þá einnig bera af á hafnarsvæðinu en Hafrannsóknastofnun og arkitektastofan Batteríið fengu viðurkenningu fyrir snyrtileika á lóðum fyrirtækja.
Hafrannsóknarstofnun hefur komið sér vel fyrir á Fornubúðum í nýju og reisulegu húsnæði og hefur lagt metnaði í að frágangur á lóð sé til fyrirmyndar. Allir fletir eru í skala við húsið, bryggjan mjög falleg með bekkjum þar sem hægt er að setjast og njóta umhverfisins og útsýnisins frá þessum stað sem er einstakt.
Lóðin við arkitektastofuna Batteríið að Hvaleyrarbraut 32 hefur verið hönnuð með það í huga að vera viðhaldslítil en á sama tíma smekkleg og tekur vel á móti þeim gestum og gangandi og er í senn dvalarrými þar sem starfsfólk getur notið sólar á móti suðri á palli fyrir framan húsið og útsýnis yfir Hvaleyrarlón.