Ísland með sjötta hæsta bensínverðið

Ísland raðar sér í sjötta sæti meðal Evrópulanda yfir hæsta bensínverðið til neytenda að því er fram kemur í samanburði Orkuspárnefndar Orkustofnunar á bensínverði milli Íslands og aðildarlanda Evrópusambandsins, eða í alls 28 Evrópulöndum. Borið er saman meðalverð á bensíni á hvern lítra reiknað í evrum í þessum löndum í ágúst síðastliðnum.

Orkuspárnefnd bendir á að verð á olíuvörum er mishátt eftir löndum sem stafi að miklum hluta af mismunandi skattlagningu, en samanburður milli landa stýrist einnig af gengi gjaldmiðla. „Verð á bensíni er samkvæmt þessu frá 1,13 evrum á lítra upp í 1,83 evrur á lítra. Hafa þarf þó í huga að dreifingarkostnaður er væntanlega meiri á Íslandi en í mörgum öðrum löndum sökum þess hve landið er strjálbýlt,“ segir í skýrslu nefndarinnar, þar sem birt er eldsneytisspá til ársins 2060.

Bensínverð fyrir álagningu opinberra gjalda hæst á Íslandi

Meðaldæluverðið hér á landi samkvæmt samanburðinum var 1,652 evrur á lítra sem svarar til um 245 króna ef miðað er við meðalgengi gagnvart evru í ágúst. Útsöluverðið er hæst í Hollandi og því næst koma Finnland, Grikkland, Danmörk, Portúgal og Ísland. Lægst var verðið í Búlgaríu, Rúmeníu og Póllandi.

Graf/mbl.is

Sé eingöngu litið á dæluverðið á bensíni án opinberra gjalda trónir Ísland á toppnum en hér á landi var verðið 0,744 evrur og næsthæst er það í Danmörku fyrir álagningu opinberra gjalda eða 0,714 evrur.

Einnig er borið saman hlutfall opinberra gjalda í bensínverðinu og færist Ísland þá langt niður eftir listanum. Er hlutfall opinberra gjalda af dæluverðinu hærra en hér á landi í 17 Evrópulöndum samkvæmt samanburðinum. Hlutfall opinberra gjalda af bensínverðinu er hæst í Hollandi og á Ítalíu.

Fram kemur í skýrslunni að frá því um 1980 hefur virði innflutts eldsneytis í hlutfalli við útflutning Íslendinga farið lækkandi og var um 12% árið 2020. Ætla mætti að verðsveiflur á erlendum olíumörkuðum hafi því minni áhrif á íslenskt efnahagslíf í dag en áður, segir þar.

Sjá má af umfjölluninni að bensínverð hér á landi var hæst árið 2012 þegar meðalbensínverð var tæplega 270 krónur á hvern lítra á verðlagi þess árs. Árið 2019 var áætlaður orkukostnaður á hverja 100 km mestur fyrir bensínbíla eða 1.447 kr. á hverja 100 km á verðlagi þess árs. Hagstæðast sé að aka rafbíl sem hlaðinn er heima fyrir, þar sem áætlað verð á 100 km sé 246 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert