Undirbúningur að byggingu nýs flugskýlis Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli er í fullum gangi. Stefnt er að því að skýlið verði tilbúið til notkunar um mitt ár 2022. Margir áratugir eru síðan nýtt og stórt flugskýli var síðast byggt á Reykjavíkurflugvelli.
Það er ríkisfyrirtækið Öryggisfjarskipti ehf. sem byggir flugskýlið fyrir Landhelgisgæsluna en það hefur fengið götunúmerið Nauthólsvegur 86B. Nýlega var auglýst eftir tilboðum í jarðvinnu vegna skýlisins og verða tilboð opnuð 30. september nk. Reiknað er með að jarðvegsvinna geti hafist í október og taki um átta vikur.
Þá var í vikunni auglýst eftir þátttökubeiðnum í forval fyrir lokað útboð vegna flugskýlisins. Útboðið felst í verkfræðihönnun og framleiðslu á burðargrind úr límtré ásamt samlokueiningum í þak og veggi. Áhugsasmir eiga að hafa samband við verkfræðistofuna Eflu eigi síðar en 11. október nk.
Hið nýja flugskýli verður 2.822 fermetrar að stærð, 39 metra breitt og 39 metra langt. Mænihæð verður 12 metrar. Það mun rúma tvær björgunarþyrlur. Þá verður byggð tengibygging á tveimur hæðum, sem tengist núverandi flugskýli og á að hýsa skrifstofur, mötuneyti starfsmanna, búningsklefa og hvíldarrými fyrir stafsfólk. Hægt verður að fjarlægja byggingarnar ef flugstarfsemi leggst af á Reykjavíkurflugvelli í framtíðinni.
Eins og fram hefur komið rúmar núverandi flugskýli ekki öll loftför Gæslunnar, þrjár þyrlur og flugvél. Að auki uppfyllir flugskýlið ekki kröfur um brunavarnir auk þess sem almenn aðstaða starfsfólks er alls ófullnægjandi og langt frá kröfum nútímans. Þá sé ekki hægt að viðhafa almennar öryggiskröfur sem gerðar eru til aðstöðu þar sem viðhald loftfara fer fram. Því var mikil þörf á nýju skýli, sem byggt verður suðaustan við hið gamla.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 26. september.