Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi er búið að skila inn skýrslu til landskjörstjórnar. Reykjavíkurkjördæmi norður er einnig búið að skila inn einhverjum gögnum. Frestur sem landskjörstjórn setti fyrir skilum á skýrslunum rann út klukkan átta.
Aðrar yfirkjörstjórnir eru ekki búnar að skila inn gögnum en Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritari landskjörstjórnar, á von á því að fá gögn frá öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi í kvöld.
Þau kjördæmi munu skila sínum skýrslum á morgun, Suðurkjördæmi vegna endurtalningar sem stendur nú yfir og Norðvesturkjördæmi af persónulegum ástæðum formanns.
Landskjörstjórn óskaði í dag eftir skýrslum frá yfirkjörstjórnum allra kjördæmanna til þess að eyða óvissunni sem ríkt hefur vegna kosninganna og þeirrar uppstokkunar sem endurtalning í Norðvesturkjördæmi hafði í för með sér.
Yfirkjörstjórnirnar höfðu frest til klukkan átta í kvöld en Kristín á von á því að skýrslurnar muni berast fram eftir kvöldi.
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, segist vera búin að renna yfir skýrsluna frá Suðvesturkjördæmi og hún sé til fyrirmyndar.
Þegar allar skýrslurnar liggja fyrir mun hún boða til fundar þar sem landskjörstjórn mun fara yfir gögnin og ættu þá að liggja fyrir nægar upplýsingar til að taka ákvörðun um næstu skref.