Aukinn viðbúnaður er hjá björgunarsveitum Landsbjargar víða um land vegna slæmrar veðurspár á morgun. Óvissustig almannavarna er í gildi og gular og appelsínugular veðurviðvaranir sömuleiðis.
Björgunarsveitir hafa í dag sinnt útköllum vegna veðurs á Norðurlandi og á Vestfjörðum. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitir hafi í dag sinnt útköllum vegna bifreiða í vandræðum, foktjóns, sauðfjár og bryggju sem losnaði á Vestfjörðum.
Þá segir Davíð að ýmislegt hafi verið gert til að tryggja fullnægjandi viðbúnað fyrir óveðrið á morgun.
„Björgunarsveitir eru klárlega búnar að vera að undirbúa sig undir þetta væntanlega veður í dag. Það er búið að senda snjóbíla og breytta björgunarsveitarbíla frá suðvesturhorninu á Vestfirði til að vera til taks ef spáin rætist á morgun. Svo eru aðgerðastjórnendur björgunarsveita búnir að vera á stöðufundum með almannavörnum í dag að undirbúa þetta eins og kostur er og samræma viðbrögð,“ segir Davíð.
Hann bætir við að hann sé oft spurður út í „sérstakan viðbúnað“ þegar von er á vondu veðri.
„Það er sjaldnast en það er klárlega núna. Björgunarsveitir á Norðurlandi og á Vestfjörðum hafa verið að yfirfara búnaðinn og ganga úr skugga um að snjóbílar og jeppar séu klárir í vetrarveður.“
Spurður hvort að viðbúnaður fyrir morgundaginn sé svipaður og fyrir mikið óveður sem varð í desember 2019 segir Davíð:
„Þetta er kannski ekki alveg sama umfang og var þá en þetta er af svipuðum meiði, en núna er þetta staðbundnara. Menn eru búnir að læra af því veðri, sem kom kannski að einhverju leyti aftan að almannavarnakerfinu og hugmyndin er núna að færa snjóbíla og svoleiðis svo að hægt verði að flytja fólk og búnað á milli svæða þegar veðrið skellur á.“
Þá biðlar Davíð til ökumanna að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum:
„Í kvöld og á morgun, og í rauninni næstu daga, er skítaspá í kortunum og þá er aldrei of oft ítrekað að fólk fylgist vel með veðurspám, færð á vegum og eigin búnaði áður en það heldur af stað og eins og hefur verið ítrekað í dag verður ekkert ferðaveður á norðanverðu landinu á morgun.“