Gætu kosið aftur í desember eða janúar

Ásahreppur felldi sameiningartillöguna.
Ásahreppur felldi sameiningartillöguna. Ljósmynd/Ásahreppur

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga, þar sem tillaga um sameiningu er samþykkt, heimilt að ákveða að sameinast án þeirra sveitarfélaga þar sem tillögunni er hafnað.

Á þetta er bent í tilkynningu frá samstarfsnefnd um sameiningarmál, í kjölfar þess að íbúar Ásahrepps felldu tillögu um að hreppurinn sameinaðist Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi, Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra.

Kosið var um sameininguna samhliða alþingiskosningum á laugardag, en fyrir kosningarnar höfðu sveitarstjórnirnar fimm lýst því yfir að þær myndu ekki nýta þessa heimild.

Ný tillaga þarf að koma fram

Vilji sveitarstjórnirnar skoða aðra sameiningarkosti þarf því að koma fram ný tillaga eða tillögur um sameiningarviðræður og gefa íbúum tækifæri til að kjósa að nýju.

„Samstarfsnefndin mun funda í vikunni og ræða næstu skref. Meirihluti kjósenda í fjórum af fimm sveitarfélögum eru samþykkir því að sveitarfélögin sameinist,“ er haft eftir Antoni Kára Halldórssyni formanni samstarfsnendarinnar í tilkynningu.

„Einn valmöguleikinn hlýtur að vera að kosið verði aftur í þeim fjórum sveitarfélögum sem samþykktu og kannað hvort íbúar vilji að sameiningin gangi í gegn. Það gæti gerst tiltölulega hratt, til dæmis í desember eða janúar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert