Tillagan var felld en umræður haldi áfram

Ásahreppur felldi sameiningartillöguna.
Ásahreppur felldi sameiningartillöguna. Kort/SÍS

Þótt tillaga um sameiningu Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftáhrepps á Suðurlandi hafi verið felld af íbúum fyrstnefnda sveitarfélagsins er ástæða til þess að forsvarsmenn hinna fjögurra kanni hvort grundvöllur sé fyrir sameiningu þar. Þetta segir Anton Kári Halldórsson, formaður samstarfsnefndar um sameiningarmál.

Í Ásahreppi, þar sem íbúar eru 271, voru 79% kjósenda á móti sameiningu. Í Skaftáhreppi voru hins vegar 75% þeirra sem atkvæði greiddu fylgjandi tillögunni sem fyrir var lögð. Í Rangárþingi ytra sögðu 51% já í Mýrdal og í Rangárþingi eystra var einnig meirihluti fyrir málinu, það er 52% á hvorum stað. Afstaða Áshreppinga réð því að sameiningartillagan var felld, þótt 1.313 (52%) greiddu með henni en 1.187 (48%) væru á móti. Virkjanir á hálendinu eru nokkrar innan landamæra Ásahrepps og þess hefur sveitarfélagið notið í fasteignagjöldum. Hefur því getað haldið álögum á íbúa mjög lágum. „Fólk vill halda í lága skatta og niðurgreidd þjónustugjöld eins og hér bjóðast. Þess vegna meðal annars held ég að tillaga um sameningu hafi verið felld,“ segir Ásta Berghildur Ólafsdóttir oddviti Ásahrepps um niðurstöðu kosninganna.

Spinna má út frá mynstrum

„Niðurstaðan er skýr. Tillagan var felld en eftir standa ákveðin mynstur sem spinna má út frá,“ segir Anton Kári. Í aðdraganda kosninganna hafi verið tekin margvísleg greiningarvinna um kosti og galla sameiningar og línur lagðar út frá upplýsingum. Á þeim megi byggja og hugsanlega setja fram nýja tillögu um sameiningu, án Ásahrepps. Þá væri í pakkanum tillaga að 5.000 manna sveitarfélagi, sem næði frá Holtum í Rangárvallasýslu og austur að Skeiðarársandi. Á þessu svæði eru fjórir þéttbýlisstaðirnir, það er Hella, Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur – og svo víðfeðm landbúnaðarhéruð þar sem vegalengdir eru oft mikilar. Því var í umræðu um sameiningu lögð áhersla á vegamál, sem heimamenn hafa lýst áhuga sínum á að taka yfir að einhverju leyti.

Ítarlegri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert