Fjórir nýir leikskólar opna á næstu sex mánuðum og er áætlað að leikskólarnir geti tekið á móti samtals 340 börnum, því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Þar segir að leikskólarnir fjórir verði í færanlegu húsnæði, svokölluðum „ævintýraborgum“, og verði við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Barónsstíg og í Vogabyggð.
„Opnun nýrra leikskóla er liður í aðgerðaráætluninni ‚Brúum bilið‘ sem hefur að markmiði að fjölga leikskólarýmum í Reykjavík svo bjóða megi börnum leikskólapláss þegar 12 mánaða fæðingarorlofi sleppir,“ segir í tilkynningunni.
Þegar „Brúum bilið“ var fyrst samþykkt fyrir tveimur árum var gert ráð fyrir að leikskólarýmum fjölgaði um 700-750 fyrir lok árs 2023. Í tilkynningunni segir að leikskólarýmum muni fjölga meira, til þess meðal annars að mæta fólksfjölgun og „vaxandi þörf“.
Þá segir að stefnt sé að opnun leikskólans við Eggertsgötu í nóvember, við Nauthólsveg í desember, við Barónsstíg í febrúar og Vogabyggð í mars.
Opnað hefur fyrir umsóknir í alla leikskólana, segir í tilkynningunni.
Nánar á vef Reykjavíkurborgar.