Baldur S. Blöndal
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit vaktar Sauðá gaumgæfilega eftir að krapstífla myndaðist í henni í dag. Nokkrar íbúðir hafa þegar verið rýmdar auk þess að vegum hefur verið lokað.
Hafdís Einarsdóttir formaður Björgunarsveitar Skagfirðingasveitar segir daginn annars hafa verið nokkuð rólegan hjá sveitinni: „Við höfum nú ekki fengið mörg verkefni utan þessa, við vorum beðin um að losa tvo bíla en höfum annars bara verið hérna með vöktunarpóst við Sauðá.“
Hún segir ána hafa verið stíflaða í fimm klukkustundir en sveitin leggi brátt af stað í skoðunarferð á snjóbílum meðfram ánni. „Við erum bara að fara að græja það, finna stífluna og átta okkur á umfanginu fyrir myrkur.“
Þótt áin sé ekki straumhörð bendir Hafdís á að töluvert vatnsmagn geti safnast upp á fimm klukkustundum: „Við höfum varann á og erum að undirbúa okkur fyrir þó nokkurt flóð. Nokkrir vegir voru lokaðir af í dag og íbúðir á jarðhæðum í blokkum rýmdar.“
Íbúar þeirra húsakynna sem voru rýmd eiga allir önnur hús að venda, að sögn Hafdísar, svo engin þörf var á því að setja upp sérstakar miðstöðvar fyrir þá.