Land heldur áfram að rísa í eldstöðinni Öskju og hafði í byrjun vikunnar risið um meira en tíu sentimetra frá byrjun ágústmánaðar, þegar þess varð fyrst vart.
Land hafði þá ekki risið í eldstöðinni í fleiri tugi ára.
„Þetta var komið yfir hundrað millimetra upp úr helgi,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga.
Þessi þróun hefur sést glögglega á GPS-stöð sem staðsett er inni í öskjunni og stendur raunar næstum yfir miðju landrissins. Að auki hafa gervitunglamyndir nýst til að staðsetja landrisið betur, en þær eru teknar á nokkurra daga fresti.
Gögn hafa þó ekki borist frá GPS-stöðinni frá því um helgina, eftir að endurvarpi Veðurstofunnar missti samband.
Stofnunin hefur því gert út leiðangur til að laga endurvarpann og freista þess að setja út fleiri stöðvar.
„En veðrið er ekki alveg að hjálpa okkur,“ segir Benedikt. Mannskapurinn er nú á Mývatni en mun reyna að fara inn að Öskju í kvöld þegar vind tekur að lægja.