Súðavíkurhlíð og Flateyrarvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu og rekur deildarstjóra umferðarþjónustu ekki minni til þess að Vegagerðin hafi áður þurft að loka vegum af þeim sökum í septembermánuði.
RÚV greindi fyrst frá.
Óvenjulegar hliðar veðursins verða því sífellt fleiri en eins og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur rakti í samtali við mbl.is er vindáttin óvenjuleg, lægðin fer frá austri til vesturs, sem er ekki hefðbundið, og þá er einnig óalgengt að veður sem þetta skelli á landinu svo snemma haustsins.
„Það er vitlaust veður,“ segir deildarstjórinn, Kristinn Jónsson, í samtali við mbl.is.
Er ekki óvanalegt að loka þurfi vegum vegna snjóflóðahættu svo snemma hausts?
„Ég held að ég muni ekki eftir því að þess hafi þurft áður, en minnið svíkur nú líka,“ segir Kristinn. Hann leggur til að fólk haldi sig heima á meðan veðrið gengur yfir.
Gular og appelsínugular viðvaranir vegna veðurs eru í gildi víða um land í dag en þær falla úr gildi ein af annarri þegar líður á kvöldið. Veðrið verður hvað verst á Vestfjarðakjálkanum og á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð eftir hádegi.