Hestakerra feyktist í hlið bifreiðar vegna vindhviðu

Atvikið átti sér stað um ellefuleytið í morgun.
Atvikið átti sér stað um ellefuleytið í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hestakerra aftan á bíl feyktist vegna vindhviðu á Vesturlandsvegi í dag. Kerran losnaði með þeim afleiðingum að hún snérist og lenti í vinstri hlið bifreiðar.

Atvikið átti sér stað um ellefuleytið í morgun en Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að enginn hafi slasast.

Hann segir þá að töluvert hafi verið um árekstra í dag þar sem veður á í sök. Hann bendir því á að fólk ætti að hafa varann á.

„Þegar það eru komnar þær aðstæður að það geti verið hálka eða vetraraðstæður og ég tala nú ekki um þegar það er spáð miklum vindi og mögulega slyddu eða snjókomu að þá skal alltaf hafa varann á og fara með ítrustu gætni,“ segir hann.

„Ekki fara af stað þar sem búist er við snjó eða hálku nema að ökutæki sé búið til vetraraksturs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert