Magnús Davíð Norðdahl er undrandi á framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi en í dag komst upp um myndatökur af óinnsigluðum kjörgögnum í Borgarnesi.
Magnús segist einvörðungu byggja afstöðu sína á orðum og gjörðum Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
„Staðreyndin er sú að við erum með formann yfirkjörstjórnar sem braut lög, virðist finnast í lagi að brjóta lög og telur hefð geta gengið framar almennum lögum, í þessu tilfelli kosningalögum.
Hann vísaði til þess þegar hann var spurður að því hvers vegna hann hefði ekki innsiglað gögnin í samræmi við lög og sagði að það væri hefð fyrir því,“ segir Magnús í samtali við mbl.is. Hann bendir einnig á að hvorugur umboðsmaður Pírata hafi verið látinn vita af endurtalningunni þegar hún hófst á sunnudag.
Magnús segir orð og háttsemi Inga rýja kosningarnar öllu trausti:
„Ég byggi afstöðu mína á því að þegar þú ert með einhvern sem stýrir kosningum sem hefur þessi viðhorf og brýtur lög með þessum hætti. Hvernig eiga þá frambjóðendur og kjósendur í kjördæminu að geta treyst því að fram hafi farið heiðarlegar kosningar? Þá þurfum við ekki að ræða um hvort hægt sé að sanna þetta eða hitt. Við vitum það þegar kosningar fara fram að það þarf að taka afstöðu til fjölda atriða.“
Vísir greindi frá því í dag að tengdadóttir hótelstjóra Hótels Borgarness hefði birt myndir úr talningaraðstöðu af óinnsigluðum kjörgögnum eftir fyrstu talningu en fyrir þá seinni. Þessum myndum hefur nú verið eytt. Magnús segir þetta bætast ofan á annað misferli í þessu máli og spyr „hvar endar þetta?“
Magnús telur það eina í stöðunni núna að skipa hæfa og nýja yfirkjörstjórn og endurtaka kosningarnar þannig að það sé hafið yfir allan vafa að kosningalögum sé fylgt.