Mikill viðbúnaður hjá björgunarsveitum vegna veðurs

Viðvaranir klukkan 12 í dag, samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Viðvaranir klukkan 12 í dag, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Kort/Veðurstofa Íslands

Björgunarsveitir á Vopnafirði, Hofsósi og í Bolungarvík hafa verið kallaðar út í dag vegna veðurs og þokutengdra verkefna.

Að sögn Davíðs Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, hefur þó ekki komið holskefla af verkefnum en mikill viðbúnaður sé hjá björgunarsveitum þar sem ljóst er að veðurfar í dag gæti haft það í för með sér að nokkuð annasamt yrði.

„Svo hafa líka verið að berast útköll í björgunarsveitir á Austurlandi út af föstum bílum, þar sem það er greinilegt að færð er að spillast þar.“

Ekkert ferðaveður

Davíð segir mjög mikilvægt að fólk ferðist ekki að óþörfu í dag þar sem ljóst sé að ekkert ferðaveður muni vera. 

„Það er mjög mikilvægt að ítreka þau varnaðarorð sem hafa ómað frá því í gær að það er ekkert ferðaveður á norðurhelmingi landsins í dag, það er nokkuð mikið að rætast sýnist mér,“ segir hann.

„Við búumst alveg við því að á norðvesturhluta landsins verði einhver verkefni hjá björgunarsveitum í dag. Ég held að það sé mikilvægt að við ítrekum það við fólk að það er ekkert ferðaveður á þessum slóðum.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert