Inga Þóra Pálsdóttir
Björgunarsveitin hefur verið önnum kafin í dag. Rúmlegs eitt hundrað útköll hafa borist þeim í dag.
„Um kaffileytið á Vestfjörðum fór skyndilega að hvessa en ekki var mikil úrkoma. Á einum og hálfum klukkutíma komu um 30 beiðnir. Björgunarsveitarfólk var á fullu að sinna allskonar verkefnum þá,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Davíð segir að björgunarsveitarmenn hafa verið síðan klukkan fjögur í dag að sinna verkefnum á Siglufirði.
„Þegar fór að hægja um á Vestfjörðum komu tilkynningar um vatnstjón á Siglufirði. Bæði slökkviliðið á staðnum og björgunarsveitarfólk hefur verið að sinna því síðan upp úr fjögur. Aðallega hafa komið verkefni tengd því að vatn væri að flæða inn í kjallara á húsum eða koma upp úr niðurföllum.“
„Seinnipartinn fór að bera á tilkynningum um ökumenn bifreiða á furðulegustu stöðum,“ segir Davíð.
Sem dæmi nefnir hann fastan bíl á Kjalvegi á miðju hálendinu og annan sem var á leiðinni upp í Landmannalaugar. „Við vorum ekki að gera ráð fyrir að fólk væri að ferðast á hálendið í svona veðri.“
Davíð segir flest útköllin hafa snúist um að aðstoða ökumenn bifreiða og segir það að einhverju leyti skýrast vegna þess að fólk sé ekki vant að fá knappa lægð svona snemma á haustin og því séu margir enn á sumardekkjum.
Þá segir Davíð að hann hefði viljað sjá fólk vera skynsamara í dag. „Maður hefði viljað sjá fólk hafa meðtekið varnarorðin sem glumdu víða í gær um að það yrði ekkert ferðaveður í dag.“