Slæm veðurspá er fyrir norðvestanvert landið í dag með stórhríð á fjallvegum og stormi, jafnvel ofsaveðri. Kröpp og djúp lægð gengur með norðurströndinni í dag og sveigir yfir Vestfirði í kvöld.
Veðurstofan mælist til þess að fólk á óveðurssvæðum tryggi lausamuni utandyra. Þá er fólki ráðið frá ferðalögum.
„Búast má við samgöngu- og rafmagnstruflunum á Norðurlandi, Ströndum, Vestfjörðum við Breiðafjörð í dag og eru Almannavarnir með óvissustig vegna veðurs. Best sleppur þó Suður- og Suðausturland við óveðrið, enda engar viðvarnir í gild á þeim slóðum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Hún gaf í gær út appelsínugular viðvaranir vegna veðurs við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra í dag. Auk þess var gul viðvörun á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Spáð var norðvestan stórhríð á Vestfjörðum milli klukkan 10 og 20 í dag. Þá á að verða norðvestan 18-25 m/s og talsverð snjókoma með skafrenningi og lélegu skyggni. Sama veðri er spáð kl. 11-18 á Ströndum og Norðurlandi vestra og klukkan 15-23 við Breiðafjörð nema þar verður éljagangur með skafrenningi og lélegu skyggni.
Vegagerðin vakti einnig athygli á þessari slæmu veðurspá og sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í færslu á Facebook að hegðun lægðarinnar sem þessu ylli væri óvenjuleg í flestu tilliti.
Óveðrinu veldur lægð sem myndast norður af Skotlandi og fer til norðvesturs. Um leið dýpkar hún mjög og veldur óvenjulegu veðri í alla staði. Gangi veðurspár eftir megi búast við allt að því aftakaveðri á Vestfjörðum, Ströndum og vestantil á Norðurlandi um miðjan daginn með nokkuð óvenjulegri NV- og V-átt, mikilli krapahríð í byggð og að umtalsvert muni snjóa á fjallvegum.
„Annars er talsverð óvissa með vindinn og vindátt á endanum, einnig hitann. Ekki síst hve óvenjulegt veður þetta þykir,“ skrifaði Einar Sveinbjörnsson.
Veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt spá Veðurstofunnar:
Á miðvikudag:
Suðlæg átt, 8-15 m/s og víða skúrir eða slydduél, en hægari og úrkomulítið NA-til. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn.
Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s en 15-20 m/s SA-til. Rigning með köflum á A-verðu landinu, annars þurrt að kalla. Hiti víða 2 til 7 stig.
Á föstudag:
Norðan og norðaustan 8-15 m/s og rigning, en þurrt að mest S- og V-lands. Hiti 4 til 9 stig.
Á laugardag og sunnudag:
Norðanáttir og víða rigning, en bjart með köflum sunnan heiða. Milt veður.
Á mánudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðanáttir með rigningu eða slyddu, en bjartviðri syðra og kólnandi veður.