Þrjár rafmagnslínur hafa slegið út vegna veðurs

Tíu mínútna rafmagnsleysi varð á Húsavík um klukkan átta í …
Tíu mínútna rafmagnsleysi varð á Húsavík um klukkan átta í morgun þegar Húsavíkurlína fór út. mbl.is/​Hari

Í morgun hafa þrjár línur, Húsavíkurlína, Laxárlína og Mjólkárlína, farið út sökum veðurs. Tíu mínútna rafmagnsleysi varð á Húsavík um klukkan átta í morgun þegar Húsavíkurlína fór út en annars hefur ekki orðið neitt rafmagnsleysi, samkvæmt Steinunni Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets. 

Hún segir undirbúning fyrir óveðrið hafa staðið yfir bæði í gær og í morgun og að Landsnet hafi fundað með almannavörnum, Orkubúi Vestfjarða, Rarik og veðurfræðingi, þar sem metið var hvar gæti orðið einhver áraun á línur hjá þeim og þá í kjölfarið að rafmagn gæti slegið út.

„Við erum búin að manna tvö tengivirki í Breiðadal og Hrútafirði og það eru tengivirkin sem fóru illa út úr óveðrinu 2019,“ segir hún.

„Svo erum við með aukavaktir í stjórnstöðinni okkar og erum líka búin að skoða hvar varaaflið okkar er staðsett og hvar við getum mögulega fært það til.“

Óveðrið veldur áhyggjum

Steinunn segir að óveðrið hafi valdið þeim töluverðum áhyggjum og því hafi þau byrjað að undirbúa sig strax fyrir daginn í dag.

„Maður veit aldrei hvernig veðrið verður svo á endanum en við erum eins vel undirbúin og við mögulega getum. Svo fylgjumst við auðvitað vel með framvindunni og þróuninni á veðrinu og bregðumst við eftir þörfum.“

„Við tókum líka þá ákvörðun í morgun að færa norðanverða Vestfirði á varaafl, til þess að búa okkur undir ef eitthvað myndi gerast þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert