Veðrið er farið að versna

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er á meðal þeirra sem lokaðir eru …
Vegurinn um Súðavíkurhlíð er á meðal þeirra sem lokaðir eru á Vestfjörðum vegna slæmrar færðar og veðurs. mbl.is/Sigurður Bogi

Enn er þokkalegt veður á Ísafirði þrátt fyrir appelsínugula viðvörun á svæðinu en veður er farið að versna. „Við gerum nú alveg ráð fyrir því að komast í gegnum þetta eins og svo oft áður,“ segir Ingvar Jakobsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði, í samtali við mbl.is. 

Appelsínugul viðvörun vegna norðvestan stórhríðar tók gildi á Vestfjörðum klukkan 10 í morgun og gildir hún til klukkan átta í kvöld. Veðurstofan gerir ráð fyrir því að vindhviður geti náð 45 metr­um á sek­úndu síðar í dag á lág­lendi á Vest­fjörðum, svo sem í Ísa­fjarðar­djúpi.

Víða er lokað á fjallvegum og er þar vetrarfærð. Til dæmis er vegurinn um Klettsháls lokaður sem og Dynjandisheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Loka á Flateyrarvegi og Súðavíkurhlíð klukkan hálftólf.

„Við erum alltaf í startholunum

Er vonda veðrið komið til ykkar? 

„Það er ekki brostið á í þeirri mynd sem við eigum von á en það er að versna og einhverjum vegum hefur verið lokað. Þá á að loka fleiri vegum,“ segir Ingvar. 

Lögreglan á Ísafirði hefur ekki þurft að sinna neinum útköllum vegna veðurs til þessa. En Ingvar segir lögregluna vera í startholunum. 

„Við erum alltaf í startholunum,“ segir Ingvar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert