Anna María býður sig fram til formanns KÍ

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, hefur ákveðið að gefa …
Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, hefur ákveðið að gefa kost á sér í formannskjöri á komandi þingi.

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, gefur kost á sér í embætti formanns sambandsins, en formannskosningar fara fram í byrjun nóvember og verða formannsskipti á þingi sambandsins í apríl á næsta ári.

Þar með stefnir í formannsslag, en áður hafði Hanna Björg Vil­hjálms­dótt­ir, fram­halds­skóla­kenn­ari og for­kona jafn­rétt­is­nefnd­ar sambandsins, boðið sig fram.

Í tilkynningu frá Önnu Maríu segir að hún vilji fylgja fast eftir ýmsum umbótamálum sem unnið hafi verið að síðasta kjörtímabil og nefnir hún þar þrjú atriði sérstaklega: „Í fyrsta lagi þarf að fjármagna og fylgja eftir aðgerðaáætlun menntastefnu sem meðal annars á að tryggja áframhald aðgerða til að fjölga kennaranemum, veita skólum fjármagn og frelsi til innleiðingar stefnunnar á eigin forsendum og byggja upp skólaþjónustu og stuðning á landsvísu. Í öðru lagi þarf að bæta kjör kennara og uppræta þá djúpu kynbundnu misskiptingu sem til staðar er á íslenskum vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Í þriðja lagi vil ég halda áfram að þróa starfsemi Kennarasambands Íslands og efla þjónustu við félagsfólk.“

Hún segir miklar breytingar til batnaðar hafa átt sér stað á núverandi kjörtímabili og vill vinn áfram á þeirri leið. „Ég vil byggja ofan á þann grunn og eiga í traustu og málefnalegu samstarfi við stjórnvöld, háskólana, erlenda samstarfsaðila, önnur stéttarfélög, menntamálastofnun, ríkissáttasemjara og fleiri,“ segir Anna María.

Segir hún mikilvægt að nýta færið vel sem nú sé uppi í menntamálum: „Ég mun leggja mig fram um að gæta hagsmuna leikskólans, grunnskólans, framhaldsskólans og tónlistarskólans. Þá tel ég mikinn mannauð felast í kennurum á eftirlaunum í faglegu og félagslegu ljósi. Þann auð vil ég taka þátt í að virkja. Eins þarf að halda áfram að auka tengsl við kennaranema því rödd þeirra er sterk er kemur að mótun menntakerfis til framtíðar.

Það er fágætt dauðafæri í íslenskum menntamálum um þessar mundir. Það er mikilvægt að nýta færið vel. Fái ég stuðning til þess treysti ég mér til að leiða starfsemi Kennarasambandsins næstu árin á farsælan og uppbyggilegan hátt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert