Fjöldi skjálfta meira en fimmfaldast

Kort yfir skjálfta sem mælst hafa við Öskju frá byrjun …
Kort yfir skjálfta sem mælst hafa við Öskju frá byrjun árs. Kort/Veðurstofa Íslands

Fleiri skjálftar hafa orðið við eldstöðina Öskju norðan Vatnajökuls undanfarna tvo mánuði en þá sjö mánuði sem liðu þar á undan frá ársbyrjun.

Þannig mældust 310 skjálftar á svæðinu frá upphafi ársins og fram til loka júlí.

Síðan þá, eða í ágúst og september, hafa fleiri en 380 skjálftar mælst, þar af sex af stærð 2 eða meiri.

Við austanvert Öskjuvatn

Rúmlega 150 skjálftar mældust í ágúst og í þessum mánuði hafa mælst fleiri en 230 skjálftar til viðbótar. Til samanburðar voru þeir að meðaltali um 44 á mánuði fram að því.

Eins og sjá má á kortinu hér að ofan hafa flestir skjálftanna átt upptök sín við austanvert Öskjuvatn, þar sem heitir Kvíslahraun og í grennd við það.

Landrisið í Öskju kortlagt út frá gögnum Sentinel-1 gervitungslsins Sjá …
Landrisið í Öskju kortlagt út frá gögnum Sentinel-1 gervitungslsins Sjá má skýr merki um aflögun norðvestur af Öskjuvatni og undir því sjálfu. Kortið vann vísindamaðurinn Adriano Nobile fyrir KAUST-háskólann í Sádi-Arabíu.
Askja í forgrunni og Vatnajökull í bakgrunni.
Askja í forgrunni og Vatnajökull í bakgrunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki risið í fleiri tugi ára

Greint var frá því á mbl.is síðdegis í gær að landið við Öskju hefði í byrj­un vik­unn­ar verið búið að rísa meira en tíu senti­metra frá upphafi ág­úst­mánaðar, þegar þess varð fyrst vart.

Land hafði þá ekki risið í eld­stöðinni í fleiri tugi ára.

„Þetta var komið yfir hundrað milli­metra upp úr helgi,“ sagði Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar á sviði jarðskorpu­hreyf­inga, í samtali við mbl.is.

Kvikustreymi inn í rætur eldstöðvarinnar

Páll Ein­ars­son jarðeðlis­fræðing­ur tjáði blaðamanni mbl.is í ágúst að landris í Öskju markaði þátta­skil í virkni eld­stöðvar­inn­ar. Askja hef­ur verið að hjaðna síðustu ára­tugi og hef­ur sigið um hátt í metra síðan á átt­unda ára­tugn­um að sögn Páls.

„Það er greini­lega byrjað landris í Öskju og því fylg­ir auk­in skjálfta­virkni. Það er flest sem bend­ir til þess að þarna sé byrjað kviku­streymi inni í ræt­ur eld­stöðvar­inn­ar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert