Karl Gauti krefst þess að fyrsta talning standi

Karl Gauti Hjaltason sat á þingi í Miðflokknum og Flokki …
Karl Gauti Hjaltason sat á þingi í Miðflokknum og Flokki fólksins á síðasta kjörtímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur gert þá kröfu við yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að niðurstöður fyrstu talningar úr kjördæminu verði látnar standa sem lokatölur í kjördæminu. Endurtalning á sunnudeginum breytti úthlutun jöfnunarsæta töluvert en framkvæmd hennar hefur verið harðlega gagnrýnd.

Segir ekki gert ráð fyrir endurtalningu í lögum

Karl greindi frá því í gær að hann hefði kært niðurstöður Alþingkosninganna til lögreglu en hann datt út af þingi eftir endurtalningu sunnudagsins.

Í bréfi sem Karl sendi yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi og mbl.is hefur undir höndum, dregur Karl lögmæti endurtalningarinnar sjálfrar í efa:

„Fyrir liggur að endurtalning eða einhverskonar endurskoðun hafi farið fram mörgum klukkustunum síðar eftir að lokatökur voru tilkynntar og eftir að kjörstjórn yfirgaf talningastað. Vandséð er með hvaða lagaheimild sú endurskoðun- eða talning fór fram og þar með lögmæti þeirra endurskoðunar. Þá skal upplýst að framkvæmd hennar hefur verið kærð til lögreglu vegna mögulegra lögbrota við framkvæmd endurtalningar yfirkjörstjórnar á greiddum atkvæðum í Norðvesturkjördæmi“

Bendir á mun á fyrri og seinni talningu

Í bréfinu, sem var einnig sent á landskjörstjórn, segir Karl töluverðan mun hafa verið á upprunalegri talningu og þeirri sem fór fram á sunnudeginum sem Karl segir vekja upp fjölmargar spurningar:

„Ekki síst í ljósi þess að formaður yfirkjörstjórnar hefur staðfest í fjölmiðlum að ekki var gengið frá greiddum atkvæðum í samræmi við 104. gr. kosningalaga. Lögin gera einfaldlega ekki ráð fyrir að sú staða geti komið upp eða hreinlega komi til greina.“

Í niðurlagi bréfsins krefst Karl þess að Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, víki sæti á meðan beiðnin sé tekin fyrir. Auk þess hvetur hann aðra kjörstjórnarmenn um að „íhug[a] hæfi sitt,“ í ljósi afskipta þeirra af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka