Landskjörstjórn úthlutar þingsætum á föstudag

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar.
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar. Jakob Fannar Sigurðsson

Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar segir stjórnina ætla að koma saman strax á föstudaginn klukkan 16 til þess að úthluta þingsætum og gefa út kjörbréf. Að því loknu getur Alþingi hafið ferli til þess að skipa kjörbréfanefnd.

Spurð hvort þetta hafi verið ákvörðun landskjörstjórnar eða annarra segir Kristín það hafa ákvörðun stjórnarinnar: „Við sáum enga ástæðu til þess að tefja ferlið.“

Landskjörstjórn bókaði í gær að ekki hafi borist staðfest­ing frá yfir­kjör­stjórn Norðvest­ur­kjör­dæm­is um að meðferð kjör­gagna hefði verið full­nægj­andi.

Willum Þór Þórsson, starfandi forseti Alþingis, sagði í hádegisfréttum Rúv að eftir fund landskjörstjórnar komist málið á borð þingsins sem geti þá hafið afgreiðsluferli kjörbréfanna.

Undirbúningskjörbréfanefnd og kjörbréfanefnd

„Alþingi skipar undirbúningskjörbréfanefnd sem aflar gagna um málið og greinir þessar niðurstöður og undirbýr álit fyrir Alþingi áður en það kemur saman. Við þingsetningu er þá kosið um þá nefnd sem fer yfir það álit sem undirbúningskjörbréfanefnd hefur undirbúið fyrir kjörbréfanefnd,“ sagði Willum í fréttatímanum.

Hann sagði að Alþingi geti ekki safnað tillögum frá þingflokksformönnum um skipun í kjörbréfanefndina fyrr en úthlutunarfundi landskjörstjórnar sé lokið og því gerist ekkert fyrr en að þeim fundi loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert