Mikið að gera í gær og margir illa búnir

Appelsínugul veðurviðvörun var í gildi á norðvestanverðu landinu í gær …
Appelsínugul veðurviðvörun var í gildi á norðvestanverðu landinu í gær með tilheyrandi verkefnum fyrir björgunarsveitir á svæðinu. Ljósmynd/Landsbjörg

Talsverður erill var hjá björgunarsveitum á norðvestanverðu landinu í gær. Síðdegis í gær gerði mikið óveður á Vestfjörðum með tilheyrandi verkefnum fyrir viðbragðsaðila á svæðinu og svo færði veðrið sig austureftir í átt að Skagafirði og Hrútafirði. 

Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. 

„Það var langmest að gera hjá björgunarsveitum á Norðvesturlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Framan af degi í gær var kúfurinn af verkefnum þarna á Norðurlandi vestra, Skagafirði, í kringum Hrútafjörð og Hvammstanga og þar,“ segir Davíð. 

Björgunarsveitir aðstoðuðu margan ökumanninn í gær. Margir voru illa undir …
Björgunarsveitir aðstoðuðu margan ökumanninn í gær. Margir voru illa undir vetrarfærðina búnir. Ljósmynd/Landsbjörg

Hann segir að lengst af hafi verið um ófærðarverkefni að ræða. Bílar sátu ýmist fastir eða höfðu keyrt út af vegi. Um kaffileytið var þó mikið um verkefni á Vestfjörðum, sem voru hefðbundin að sögn Davíðs og snerust um foknar þakklæðningar, hurðir og glugga og ferðavagna sem fuku í rokinu. 

Eins og greint var frá í gær hafnaði rúta utan vegar á Hrútafjarðarhálsi með 37 ferðamenn innanborðs. Ferðamennirnir voru fluttir á Laugarbakka, þar sem hjálpfúst ferðaþjónustufólk tók á móti þeim og gaf að borða. 

Rúta fór út af veginum á Hrútafjarðarhálsi í gær. Allir …
Rúta fór út af veginum á Hrútafjarðarhálsi í gær. Allir 37 ferðamenn innanborðs sluppu ómeiddir og voru fluttir á Laugarbakka í skjól. Ljósmynd/Landsbjörg

Margir illa búnir

Davíð segir að margir hafi verið illa undir óveðrið búnir og hefðu björgunarsveitarmenn viljað sjá fólk taka meira mið af tilmælum þeirra. Hann segir þó að vel sé skiljanlegt að fólk sé ekki tilbúið í vetrarfærð þegar októbermánuður er ekki einu sinni enn genginn í garð. 

„Það var voðalega mikið af þessum umferðartengdu verkefnum, sem kannski að einhverju leyti helgast af því að bílarnir voru vanbúnir fyrir aðstæðurnar. Það voru þónokkuð margir ennþá á sumardekkjunum og margir af þeim sem þurftu á aðstoð að halda í gær voru enn ekki komnir á vetrardekk. Það er þó kannski ekki svo óeðlilegt miðað við árstímann, þessi lægð er fyrr á ferðinni en oft áður,“ segir Davíð og bætir við að björgunarsveitarfólk hefði viljað sjá fleiri taka tillit til viðvarana sem gefnar voru út daginn áður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert