„Orkubúsmenn eiga heiður skilið fyrir þessa vinnu í alla nótt,“ skrifar Jón Guðbjörn Guðjónsson, íbúi á Litlu-Ávík í Árneshreppi, í tölvupósti til mbl.is en rafmagni var komið á um sjöleytið í morgun. Rafmagnslaust hafði verið frá því á ellefta tímanum í gærmorgun er lína slitnaði í Bólstað i Selárdal í óveðrinu.
„Orkubúsmenn hjá Orkubúi Vestfjarða á Hólmavík voru við vinnu í alla nótt við að koma rafmagni á norður í Árneshrepp. Í fyrsta lagi brunnu rofar í spennistöðinni við Selá, sem er spennistöðin fyrir Árneshrepp. Það varð að fá spennir frá Bolungarvík, og það tókst í þessu vitlausa veðri sem var. Í gærkvöldi var grafa send norður en hún var lengi norður vegna ófærðar,“ segir Jón Guðbjörn.
Hann segir nokkra rafmagnsstaura hafa farið að hallast mikið og lína hafi slitnað frá einangrunum í Trékyllisvík. „Þá var brotinn staur á milli Djúpavíkur og Kjósar og ýmislegt fleira. Erfitt var að komast um, blautur snjór og ófærð.“