„Hann hefur elt mig eins og skuggi hér innanhúss frá því að hann kom heim. Hann hangir í fanginu á mér, enda er hann félagsdýr þótt hann fari sínar eigin leiðir,“ segir Laufey Vilhjálmsdóttir, eigandi kattarins Hnúts, sem skilaði sér óvænt heim nú í haust eftir rúmlega þriggja mánaða fjarveru.
„Þetta er langlengsta útilegan hans og ég var farin að jarða hann í huganum. Ég hef eytt ómældum tíma í að leita að honum,“ segir Laufey og bætir við að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hinn ellefu ára Hnútur lætur sig hverfa.
„Við fengum hann ársgamlan og þá bjuggum við á Völlunum í Hafnarfirði. Við fluttum svo til útlanda og Hnútur varð eftir hjá dóttur okkar sem bjó í Áslandinu. Hann strauk alltaf frá henni á gamla heimilið á Völlunum, svo við tókum hann á endanum með okkur út til Bretlands þar sem hann var rólegur í sólbaði úti í garði í eitt og hálft ár. Þegar við fluttum heim þurftum við að skilja hann eftir úti í heilan mánuð á kattahóteli. Heimflutningi fylgdi dýralæknakostnaður og við þurftum að borga undir hann flugfar og ferjufar. Sumir segja að Hnútur sé fyrir vikið dýrasti köttur á Íslandi.“ Eftir að fjölskyldan flutti heim var Hnútur hinn rólegasti og heimakær.
„Svo tók hann upp á því eitt sumarið að láta sig hverfa í nokkra daga. Við settum á hann staðsetningartæki og komumst að því að hann fór yfir í skóg sem er hér þó nokkuð frá heimili okkar. Þar var hann að þvælast í einhverja daga í senn, en kom svo alltaf til baka aftur. Fyrir tveimur árum gleymdum við að setja á hann tækið og þá hvarf hann í sex vikur. Við héldum að við sæjum hann ekki meir, en svo skilaði hann sér einn daginn, tággrannur eftir útileguna. Sumarið á eftir passaði ég að setja á hann staðsetningartækið og sá að hann var ekki aðeins að þvælast í skóginum heldur líka lengst uppi á heiði. Ég fór í fyrra á vikufresti til hans í skóginn og skipti um rafhlöðu í GPS-tækinu hjá honum. Þá sá ég að hann hafði gert sér huggulegt mosabæli í birkirjóðri.“ Hnútur kemur afar grannur heim eftir útilegurnar en yfir veturinn nær hann aftur á sig holdum. „Í vor sá ég á honum þegar útþráin til skógarins togaði í hann, enda hvarf hann einn daginn og skilaði sér ekki heim fyrr en í haust. Ég náði ekki að setja GPS-tækið á hann áður en hann fór svo ég vissi ekkert um hann,“ segir Laufey og bætir við að Hnútur hafi verið inniköttur þar sem hann bjó fyrsta árið sitt. „Nú á efri árum hefur hann breyst í sígauna og fer í árvissa orlofið sitt. Við erum búin að flytja svo oft að það er kannski ekki að undra að kötturinn smitist af flökkueðlinu. “