„Eftir stækkun Sundhallarinnar og byggingu nýrra búnings- og sturtuklefa fyrir konur, „fjósið“ svonefnda, hefur ríkt ófremdarástand meðal kvenkyns sundgesta þar sem þeim er gert að fara út og ganga ca. 25 metra til þess að komast inn í gömlu Sundhöllina, þar sem eru notalegir og skjólgóðir heitir pottar og innilaugin,“ segir í erindi dr. Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur sagnfræðings sem hún sendi Reykjavíkurborg. Málið var á dagskrá Menningar-, íþrótta og tómstundaráðs borgarinnar í fyrradag.
Vilborg segir í bréfi sínu að gangan frá búningsklefum kvenna sé mikil raun að vetrarlagi og heilsuspillandi. „Margar eldri konur eru hættar að fara í sund af þessum ástæðum, enda hefur konum verið sýnd mikil lítilsvirðing í þessu máli.“ Þá segir hún að málið sé grafalvarlegt frá lýðheilsusjónarmiði en stefnt sé að því að hver einstaklingur haldi sem lengst líkamsfærni sinni.
Morgunblaðið fékk í hendur afrit af bréfi Vilborgar til Ölmu Möller landlæknis frá 18. ágúst sl. Þar kveðst hún tvisvar hafa skrifað sundhallarstjóra bréf um þetta efni og einnig borgarstjórn en þeim bréfum hafi ekki verið svarað.