Snarpur skjálfti skók suðvesturhorn landsins upp úr klukkan 11. Upptök hans voru skammt suðvestur af fjallinu Keili á Reykjanesskaga.
Jarðskjálftinn mældist 3,5 að stærð samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.
Hans varð vart víða á suðvesturhorninu, eða allt frá Sandgerði til Reykjavíkur.
Eins og greint var frá á mbl.is í gær hefur skjálftavirkni tekið sig upp að nýju í kvikuganginum sem liggur suðvestur af Keili, og var undanfari jarðeldanna sem upp komu í Geldingadölum.
„Skjálftavirkni hefur verið óvenjulega lítil meðan á gosinu hefur staðið, svo að þetta er kannski endurhvarf til fyrra lífs á Reykjanesskaga,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is í gær.
„Það eru einhverjar spennubreytingar í gangi, en það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað það er.“
Þegar gosið liggur niðri eins og það gerir núna, er þá ekki mögulegt að kvikan byrji að brjóta sér leið upp annars staðar?
„Það er vissulega einn af möguleikunum, að það sé breyting á gosopinu, sem sé breyting á gosinu sjálfu. En það er sennilega líklegra að þetta tákni einhvers konar lægð í gosinu eða jafnvel endi á gosi. Þannig að það eru ýmsar sviðsmyndir uppi og of snemmt að segja til um hver þeirra er í gangi.“