„Þessar fjallgöngur hafa gjörsamlega bjargað mínu lífi,“ segir Ólafur Árnason, fyrrverandi sjómaður og grafískur hönnuður, sem hefur gengið 3.488 sinnum upp á Úlfarsfell, en hann hefur þrisvar fengið heilablóðfall á undanförnum tíu árum.
„Fyrir átta árum var ég nánast ósjálfbjarga og rúmliggjandi og við það að bugast andlega. Ég lamaðist að hluta, vinstri hliðin á mér var ónýt og ég gat ekki gengið nema með hækjum. Stutt var í uppgjöf og lítið eftir af lífsvilja, en þá tók ég ákvörðun um að snúa við blaðinu. Ég ákvað að labba upp á Úlfarsfell, án þess að geta það, því ég var alveg handónýtur og orðinn fatlaður, sem ég er reyndar enn. Ég fékk vin minn með mér og það tók okkur fjóra klukkutíma að berjast upp í þetta fyrsta sinn. Ég er ekki þannig persóna að ég gefist upp eða hætti því sem ég er byrjaður á. Ástandið á mér í þessari fyrstu ferð var þannig að ég þurfti að setjast niður á tíu metra fresti, ná andanum og safna krafti fyrir næstu tíu eða tuttugu metra. Þetta var tekið í stuttum áföngum,“ segir Ólafur og bætir við að hann gleymi aldrei tilfinningunni sem fylgdi því að ná upp á toppinn.
„Það var stórkostleg upplifun og mikill sigur. Ég hékk á skilti sem er þarna uppi, rétti stelpu símann minn og bað hana að taka mynd,“ segir Ólafur og hlær. „Allar götur síðan hef ég farið nánast daglega upp á Úlfarsfell, en reyndar fótbraut ég mig í sumar og þurfti að vera frá í tvo mánuði á spítala.“
Hann segir breytinguna á líkamlegu og andlegu ástandi sínu gríðarlega, frá fyrsta skiptinu sem hann gekk á fjallið og þar til núna.
„Ég fer þetta núna án þess að finna fyrir því, það eykst varla hjartslátturinn. Úthaldið er ofboðslega gott en var ekkert fyrir átta árum. Ég er líka búinn að ganga á öll fjöll hér í nágrenninu; Móskarðshnjúka, Esjuna, Vífilfellið, Skálafell, Helgafell og Mosfell.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.