Steinn Agnar Pétursson, framkvæmdastjóri Hótel Borgarness, segir upptökur eftirlitsmyndavéla við talningarsal hótelsins komnar í hendur þar til bærra yfirvalda til rannsóknar. Hann vildi ekki segja hvaða yfirvöld það væru en tók fram að það væri ekki yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi.
Í viðtali við Stundina í gær sagði Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, að sér væri ekki heimilt að horfa á upptökurnar úr talningarsal. Hann tók fram að þær hefðu verið í gagninu meðan á talningu stóð og á milli fyrri og seinni talningar. Ingi hafði áður viðurkennt að hafa ekki innsiglað kjörgögn á milli talninganna tveggja.
Ingi var þó handviss um að ekkert misjafnt hefði átt sér stað í millitíðinni og taldi upptöku úr eftirlitsmyndavélum sanna það. Hann gæti þó ekki horft á þær vegna persónuverndarsjónarmiða.
Steinn staðfesti það í samtali við mbl.is í dag að Ingi hefði ekki nálgast upptökurnar og þær væru komnar í hendur þeirra sem hefðu rannsókn málsins með höndum. Hann gat þó ekki gefið upp hverjir það væru eða hve margir hefðu óskað eftir þeim.
Hann sagðist að lokum kominn með nóg af þessu máli og tilbúinn að snúa sér aftur að hótelrekstri, enda álag á álag ofan: „Maður var á yfirsnúningi áður en þetta mál kom upp!“
Uppfært 15:22:
Í upprunalegu fréttinni stóð að myndavélar hefðu verið inni í talningarsalnum en þær voru í reynd staðsettar við innganga hans.