„Framtíðin birtist ljóslifandi fyrir mér“

Síðan Hinrik Jósafat Atlason hóf kennslu við Háskólann í Reykjavík …
Síðan Hinrik Jósafat Atlason hóf kennslu við Háskólann í Reykjavík árið 2013 gegnum samstarfsverkefni við Advania og Microsoft á Íslandi hefur margt vatn runnið til sjávar og vinnur hann nú að gervigreindarlausn sem orðið gæti ljós í myrkri lesblindra í skólakerfinu. Ljósmynd/Aðsend

„Það er auðvelt að taka menntun sem sjálfsögðum hlut, þangað til maður kynnist betur þeim sem fá ekki sömu tækifæri vegna líkamlegs ástands sem þeir ráða ekki við og mæta takmörkuðum skilningi á.“

Þetta segir Hinrik Jósafat Atlason, stundakennari við Háskólann í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið um Atlas Primer, kennsluforrit byggt á gervigreind, sem hann vinnur að og er ætlað að vera eins konar einkakennari nemenda, sem stríða við sértæka námsörðugleika á borð við lesblindu, eða eiga af öðrum ástæðum í vandræðum með hefðbundið nám, sem byggir á lestri og lesskilningi.

„Ég man vel eftir jafnöldrum mínum, sem fundu sig aldrei í menntakerfinu. Mögulega lá áhuginn bara annars staðar en mögulega voru þeir að glíma við eitthvert líkamlegt ástand eins og lesblindu, sem gerir þeim erfitt fyrir að lesa, þrátt fyrir eðlilega greind,“ rifjar Hinrik upp, sjálfur faðir tveggja og fimm ára drengja, en hann kennir viðskiptagreind við tölvunarfræðideild HR og hagnýta upplýsingatækni við viðskiptafræðideildina.

Úr norskri sveit í gervigreind

Hinrik skartar meistaragráðu í gervigreind frá Háskólanum í Essex á Englandi og má segja að leið hans í háskólanám hafi verið allóhefðbundin, hann ólst upp í Garðabæ og fluttist til Noregs árið 2000 þar sem hann fékk vinnu á bóndabæ, en vegir virðast sannarlega liggja til allra átta úr norskum landbúnaði sé litið til viðtals Vignis Arnarsonar bónda í Noregi við Morgunblaðið í síðustu viku.

Hinrik ásamt Hildi Katrínu Rafnsdóttur, náms- og starfsráðgjafa við Háskólann …
Hinrik ásamt Hildi Katrínu Rafnsdóttur, náms- og starfsráðgjafa við Háskólann í Reykjavík. Hinrik ber námsráðgjöfum hvorra tveggju skólanna, Bifrastar og HR, vel söguna og kveður þar fara hetjur sem hann dáist að. Ljósmynd/Aðsend

Leið Hinriks þaðan lá nefnilega til Danmerkur í háskólanám í tölvunarfræði áður en hann hélt í áðurnefnt nám í Essex. Að því loknu flutti hann til Barcelona á Spáni í forritarastarf hjá sænska fyrirtækinu Transcom. „Þaðan lá leiðin aftur til Noregs þar sem ég vann sem stjórnunarráðgjafi, þangað til ég kom aftur heim árið 2011 og hóf störf hjá [upplýsingatæknifyrirtækinu] Advania. Árið 2015 stofna ég mitt eigið ráðgjafafyrirtæki en sný mér svo alfarið að Atlas Primer árið 2020,“ segir Hinrik frá.

Kennsla hans við HR hófst árið 2013 og var þar um að ræða lið í samstarfi HR, Advania og Microsoft á Íslandi um að tengja skólakerfið atvinnulífinu betur. Hinrik segir áfangana, sem hann kennir, viðskiptagreind og hagnýta upplýsingatækni, kallast mikið á, annar kenni tölvunarfræðingum að hugsa um viðskiptalegan ávinning þess, sem þeir hafa fram að færa, en hinn kenni viðskiptafræðingum að tileinka sér tæknina og þannig verða meira sjálfbjarga og ná forskoti á vinnumarkaði.

Ekki fróður um lesblindu

„Ég hef alla tíð lagt mig fram um að hafa námið eins nútímalegt og hægt er,“ segir kennarinn. „Þannig hafa allir fyrirlestrar verið teknir upp og aðstoð við nemendur er líka í boði í gegnum fjarfundi, svo allir eigi auðveldara með að stunda námið, líka þeir sem voru til dæmis heima með veikt barn eða þurftu að sinna öðrum áskorunum sem lífið á það til að leggja fyrir. Þegar Covid skellur svo á breytast mínir kennsluhættir í raun ósköp lítið því allt var þá þegar orðið meira eða minna rafrænt.“

Hinrik segist ekki hafa verið fróður um lesblindu þegar hann steig sín fyrstu skref í kennslunni fyrir átta árum. „En þegar við byrjum að bjóða nemendum að læra með Atlas Primer, byrjum við að heyra meira og meira um hvernig þessi tækni gæti nýst þeim hópi sérstaklega. Í kjölfarið gerum við nokkrar tilraunir og kynnum okkur málið betur, og þá opnuðust augu okkar fyrir því hversu alvarlega vanrækt margt ungt og flott fólk er vegna ástands sem það fæðist með og ræður í raun lítið við,“ segir hann og vísar til lesblindunnar, sem orðið hefur mörgum nemandanum myllusteinn um háls í íslensku skólakerfi.

Hinrik fjallar um val á viðskiptagreindarlausn á haustráðstefnu Advania árið …
Hinrik fjallar um val á viðskiptagreindarlausn á haustráðstefnu Advania árið 2012. Nú kennir hann viðskiptagreind við tölvunarfræðideild HR og hagnýta upplýsingatækni við viðskiptafræðideildina. Ljósmynd/Advania

„Með Atlas Primer erum við að gera einmitt það sem okkur finnst vanta, það er að segja að leyfa nemendum að læra þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, og ekki minnst eins og þeim hentar. Námsefnið má nálgast á annan hátt en aðeins sem texta eða glærur, sem hvort tveggja sér til þess að nemendur eru fastir fyrir framan skjáinn heilu og hálfu dagana með meðfylgjandi álagi á geðheilsuna og stoðkerfið,“ segir Hinrik um hugmyndina bak við gervigreindarkennarann.

Leggja mikla áherslu á íslenskuna

Enn fremur kveður hann unnt að bæta gagnvirkni náms svo um munar með því að setja samræðugervigreind í hendur hvers einasta nemanda, það er gervigreind sem bjóði upp á þann möguleika að svara spurningum um námsefnið í venjulegu töluðu máli. Þangað sé Atlas Primer að komast í dag og er sú lausn aðgengileg nemendum í gegnum tilraunaverkefni við HR og Háskólann á Bifröst, að sögn Hinriks.

Þessu hljóta þó að fylgja tungumálaörðugleikar enn sem komið er, eða hvað?

„Við leggjum mikla áherslu á að Atlas Primer tali og skilji íslensku, en sú tækni er því miður komin töluvert styttra hér á landi en til að mynda í Bandaríkjunum,“ útskýrir Hinrik. „Því er okkar næsta verkefni að byggja á góðu gengi hér heima og sækja á stóra erlenda markaði og erum við nú þegar með tvær starfsstöðvar erlendis, eina í Bangladesh og eina í Níkaragva, en þar er furðulega mikið um djúpa tæknilega þekkingu á talþjónum og höfum við verið það lánsöm að fá frábært fólk þaðan inn í félagið með okkur,“ segir hann og bætir því við að téðar starfsstöðvar séu einmitt nálægt stórum og áhugaverðum mörkuðum, sem Atlas Primer eigi fullt erindi á og séu viðræður þegar hafnar við fjárfesta um áhuga þeirra á að koma að framhaldi þróunarstarfsins.

Hinrik segir sólarhringinn í lífi kennara sjaldnast endast til að veita hverjum og einum nemanda þá einstaklingsmiðuðu þjónustu, sem þó væri æskileg í námi, auk þess sem fjárlög ríkisins gerðu almennt ekki ráð fyrir þeirri þjónustu, en Hinrik segir fjárveitingahliðina oft marka endastöð umræðu um brýn kennsluverkefni og þjónustu við nemendur.

Hinrik ásamt föður sínum, Atla Má Jósafatssyni frumkvöðli. Myndin er …
Hinrik ásamt föður sínum, Atla Má Jósafatssyni frumkvöðli. Myndin er tekin í Sjávarklasanum fyrir nokkrum árum og reyndar má sjá þriðja ættliðinn og frumkvöðulinn á henni, á myndinni á milli feðganna glittir í Jósafat Hinriksson, afa Hinriks og föður Atla Más. Ljósmynd/Aðsend

„Við kennarar vitum að margir nemendur þora ekki að spyrja spurninga og fá ekki eins mikla aðstoð og þeir þurfa. Með gervigreindum einkakennara geta allir nemendur spurt eins oft og þeir vilja, jafnvel í tilfellunum „þetta er örugglega heimskuleg spurning“ eða „það er kannski búið að spyrja um þetta áður“, sem nemendur nota gjarnan til að telja sér trú um að spyrja ekki spurninganna sem brenna á þeim. Gervigreindir einkakennarar eru alltaf til staðar, verða aldrei þreyttir á endurteknum spurningum, geta sinnt öllum nemendum samtímis, hvenær sem er sólarhringsins, og kosta aðeins brot af því sem mennskir kollegar þeirra gera,“ segir Hinrik af hugsjónum sínum í kennslumálum.

Menntakerfi nútímans frá iðnaðaröld

Þar með sé þó alls ekki sagt að mennskir kennarar verði óþarfir, öðru nær, þeir gegni lykilhlutverki við mótun námsleiða og tengingu við atvinnulífið, „en þeir hafa eflaust betri hluti við tíma sinn að gera en að flytja sama efnið í tuttugasta sinn og passa upp á að mætingarskyldu sé framfylgt,“ segir Hinrik kankvís.

„Menntakerfið sem við búum við í dag er menntakerfi iðnaðaraldarinnar. Þegar það var sett á laggirnar var markmiðið að tryggja jafnan straum af vinnuafli sem passaði inn í fyrirframákveðin hlutverk á færibandi atvinnulífsins. Núna er upplýsingaöld og menntakerfið þarf að vera í takti við breytta tíma,“ segir Hinrik og nefnir sem dæmi að leggja mætti mun meiri áherslu á frásagnarhefð innan menntakerfisins, svo sem að segja sögur úr atvinnulífinu til viðbótar við glærur og kennslubækur, taka viðtöl við fólkið með reynsluna, eiga samræður um námsefnið og deila hugleiðingum um tengsl þess við atburði líðandi stundar.

Allar umræður og skoðanaskipti megi einnig taka upp sem hljóð með einföldum hætti og mun fyrirferðarminni en ef myndefni þyrfti að fylgja. „Fyrir utan hversu auðvelt er að búa til hljóðefni, er það gætt þeim kostum að við getum flest neytt þess á meðan hendur og augu eru upptekin við annað, samanber útvarpið og sprenginguna sem varð nú nýverið í útbreiðslu hlaðvarpa og hljóðbóka,“ segir Hinrik.

Stærsti minnihlutinn

Hljóð sem viðbótarboðleið fyrir námsefni auki sveigjanleika námsumhverfisins og með því verði nemendum kleift að stunda nám hvar sem er og hvenær, við eldamennsku, líkamsrækt eða á ferð milli staða. Þetta sé ein fjölmargra hugmynda að baki Atlas Primer-kennsluforritinu.

„Hið raunverulega umfang sveigjanleikans varð okkur fyrst ljóst þegar við uppgötvuðum að hægt er að spila hljóðið eitt og sér úr flestum fyrirlestrum og hafa gagn af, og að hægt er að breyta hvaða texta sem er í tal með stafrænum röddum sem eru svo eðlilegar, að stundum er erfitt að greina þær frá þeim mannlegu. Með því að setja þetta allt saman, það er að segja námsefni sem hljóð og samræðugervigreind, er nánast allt námsumhverfið orðið aðgengilegra, sérstaklega fyrir nemendur sem eiga erfitt með lestur á miklu magni texta, hvort sem það er vegna lesblindu, athyglisbrests eða annarra námsörðugleika.“

Þorbjörg Hekla Ingólfsdóttir er fyrrverandi nemandi í HR og núverandi …
Þorbjörg Hekla Ingólfsdóttir er fyrrverandi nemandi í HR og núverandi samstarfskona Hinriks við Atlas Primer-verkefnið. Ljósmynd/Aðsend

Hinrik segir mikinn lestur alls ekki á allra færi og henti í raun aðeins því sem hann kallar stærsta minnihlutann, á meðan fjölda annarra henti mun betur að neyta námsefnis og læra það gegnum aðrar boðleiðir á borð við hljóð, mynd eða jafnvel athafnir. „Nú er talað um að allt að þriðjungur grunnskólanema fái sérúrræði á meðan hlutfallið er um tíu prósent í háskólum og þá spyr maður sig, hvers vegna er hlutfallið svona mikið lægra því hærra sem við förum upp menntastigann, og hvað varð um alla þessa einstaklinga á leiðinni?“ spyr kennarinn.

Nánast öll stafræn afþreying ólínuleg

Hann kveður það vissulega stórkostlegt að sjá hve miklar tækniframfarir hafi orðið í heiminum síðustu ár og áratugi og þrátt fyrir að fjöldi vandamála sé enn óleystur sé einstaklingsmiðuð þjónusta komin verulega langt, hvort sem litið sé til verslunar eða afþreyingar.

„Nánast öll stafræn afþreying er í dag orðin ólínuleg, sem þýðir að við getum sótt það sem við viljum þegar við viljum það, andstætt við til dæmis fyrirframákveðna sjónvarpsdagskrá,“ bendir Hinrik á. „Við sjáum til dæmis varla ungt fólk í dag án þess að það sé með eitthvað í eyrunum, hlustandi á hlaðvörp eða hljóðbækur, og flest er þetta unga fólk nú þegar að tala við Siri, Alexu og hina talþjónana.

Enn þá vantar upp á að við getum boðið talþjónanotendum upp á íslenskt viðmót sem er á pari við aðra, en við erum á réttri leið og munum ná því á endanum. Það verkefni er gríðarlega mikilvægt ef við eigum að tryggja að tungumálið okkar lifi af vegna þess að tilkoma talþjóna mun gjörbylta bæði neyslu- og hegðunarmynstri okkar innan fárra ára, rétt eins og snjallsímarnir hafa gert síðasta áratuginn og netið þar á undan,“ segir Hinrik og bætir því við að sá galli sé á gjöf Njarðar, að þessar stórkostlegu framfarir allar hafi skilað sér afar takmarkað inn í menntakerfið.

„Í Covid voru blikur á lofti og útlit fyrir að við gætum loksins látið til skara skríða og virkilega tekið til hendinni, en í dag erum við enn þá að byggja kennslu að miklu leyti á ræðuhöldum kennara. Við höfum flutt fyrirlestrana úr stofunni yfir í Zoom og í stað þess að nemendur sitji og sofni fyrir framan töflu sitja þeir og sofna fyrir framan skjáinn. Nemendur eru nú þegar að upplifa gjá á milli sín og menntakerfisins, sem virðist ekki halda í við almenna tækniþróun,“ segir Hinrik.

Tæknivæðum það sem er úrelt

Hann bendir á að sífellt fleiri greinist nú með einhvers konar námsörðugleika, sem sé ekkert annað en birtingarmynd þess, að menntakerfið nái ekki að laga sig að breyttum tímum. „Við erum allt of gjörn á að tæknivæða eitthvað sem er úrelt í stað þess hugsa hlutina upp á nýtt í ljósi tækniframfaranna og spyrja okkur sjálf, hvernig gæti nám framtíðarinnar gengið fyrir sig ef við byrjuðum með alveg hreint blað?“ kastar Hinrik fram og varla hægt að neita því að stórt er spurt. Og þá verður líka stundum fátt um svör svo sem alkunna er.

Hinrik í hnefaleikahringnum en hann hefur lagt stund á hvort …
Hinrik í hnefaleikahringnum en hann hefur lagt stund á hvort tveggja siglingar og hnefaleika þrátt fyrir að játa að hann sé hættur keppni í því síðarnefnda „sökum aldurs“ eins og hann orðar það. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef verið einstaklega lánsamur í gegnum tíðina og á yndislega fjölskyldu, hef frelsi til að ferðast hvert sem mig langar og vinna við það sem ég elska. Ég passa mig á að taka engu af því sem sjálfsögðum hlut og að vera auðmjúkur gagnvart því að einhver heppni spili þar inn. En nýlega fór ég að sjá betur og betur að gott aðgengi að menntun hafði mikið að segja um það hvernig fór,“ játar Hinrik.

Auðvelt sé að taka menntun sem sjálfsögðum hlut þar til maður kynnist betur þeim, sem ekki fái sömu tækifæri vegna ástands, andlegs eða líkamlegs, sem þeir ráða ekki við og mæta jafnvel takmörkuðum skilningi á.

„Margt lesblint fólk veit nefnilega ekki að það er lesblint og heldur að því gangi bara illa í skóla eða að það sé ekki nægilega gáfað, og það er skelfilegt veganesti að hafa með sér út í lífið,“ segir Hinrik af sannfæringu. „Sumt lesblint fólk á foreldra sem þekkja ekki einkenni lesblindu og mæta því heldur ekki miklum stuðningi heima fyrir, en að hafa gott bakland er það sem ég heyri oftast nefnt sem ástæðu þess að fólk kemst í gegnum menntakerfið þrátt fyrir að vera lesblint.

Ekki bara enn eitt lesblinduforritið

Í dag er heill heimur af fróðleik, afþreyingu, rómantík, sigrum, átökum, gleði, sorg, lífi og dauða, loks orðinn aðgengilegur lesblindum í gegnum hljóðbækur, og við getum gert það sama með námsefni. Einstaklingsmiðað nám og gott aðgengi að leiðbeinanda, jafnvel gervigreindum, breytir öllu fyrir marga og staðsetur drauminn um menntun og betra líf innan seilingar fyrir suma sem hefðu annars aldrei fengið tækifærið,“ segir Hinrik.

Hann segir Atlas Primer ekki bara vera enn eitt lesblinduforritið, heldur sveigjanlegt námsumhverfi, sem allir nemendur geti nýtt sér. Með því að bæta aðgengi að námsefni og veita nemendum aukna stoð og styttu verði vonandi minni þörf á sértækum kennsluúrræðum svo vel gefnum og klárum ungum nemendum verði gert kleift að komast gegnum menntakerfið án þess að upplifa sig á einhvern hátt vitlausa eða fatlaða eingöngu vegna þess að kerfið útiloki þá.

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir er kennslustjóri við Háskólann á Bifröst og …
Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir er kennslustjóri við Háskólann á Bifröst og undirritar hér samning við Hinrik um innleiðingu Atlas Primer fyrir nemendur Samvinnuskólans forna sem fyrir löngu var og hét. Tímarnir breytast. Ljósmynd/Aðsend

Hinrik segir almennt talað um það sem þumalputtaviðmið að tíu prósent mannkyns séu lesblind, sem mörgum þyki þó hóflega áætlað þar sem lesblinda sé mjög einstaklingsbundin og þar með ólík í samanburði. Miðað við þetta hlutfall megi gera því skóna að tugþúsundir Íslendinga fái hugsanlega aldrei tækifæri til að læra það sem þeir kjósa og hætt sé við að margir alist upp með brostna sjálfsmynd vegna þessa.

„Vissulega fá nemendur sérúrræði á borð við lengri próftíma, en það er eins og að binda um sárið án þess að gera nokkuð í því sem olli því til að byrja með. Ég dáist svo innilega að námsráðgjöfunum í HR og á Bifröst – sem ég þekki vel og hef verið heppinn að fá að vinna með – fyrir það óeigingjarna starf sem þeir vinna á hverjum degi, og hafa þessir skólar báðir sýnt í verki að þeir taka þessu máli af alvöru. En þetta mál snertir ekki bara skólana, það snertir okkur öll,“ segir Hinrik.

Mörk náms og atvinnulífs dofni

En hvernig skyldi þessi hugmynd hans, eða jafnvel hugsjón, gervigreindarkennarinn Atlas Primer, hafa fæðst?

„Ég hef komið víða við í gegnum tíðina og bjó þannig til talþjón fyrir Windows-stýrikerfið árið 2005 sem fékk hið smekklega nafn EarWax. Þar var hægt að framkvæma töluvert margar aðgerðir í Windows með raddskipunum og virkaði sú lausn furðulega vel. Hún var þó aldrei gefin út, en var mikill lærdómur fyrir mig og í dag er gaman að sjá hversu margir nota til dæmis Siri, sem byggir á sömu hugmynd og tekur hana töluvert lengra.

Einum kennt, öðrum bent. Hinrik við kennslu í Háskólanum í …
Einum kennt, öðrum bent. Hinrik við kennslu í Háskólanum í Reykjavík. Hann segir það að nemandinn fái meiri stjórn yfir sínu umhverfi vera byltingu í sjálfu sér sem leyfi okkur að nálgast námsumhverfið á allt annan hátt en við gerum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Árið 2006 stofna ég Coadra í Barcelona, sem var samstarfsvettvangur fyrir sérfræðinga í upplýsingatækni og tókum við að okkur nokkur verkefni þar sem styrkir hvers og eins fengu að njóta sín. En ég hef alltaf verið með einhver nýsköpunarverkefni á hliðarlínunni og árið 2015 bjó ég til samfélagsmiðil þar sem fólk gat tengst öðrum í gegnum sameiginlegan áhuga á viðburðum eins og tónleikum, fjallgöngu og þar fram eftir götunum. Það verkefni var mjög mikill lærdómur og það var svo árið 2019 sem hugmyndin að Atlas Primer fór að verða til hjá mér og þá upplifi ég í fyrsta skiptið að framtíðin birtist ljóslifandi fyrir mér,“ segir Hinrik og fer ekki hjá því að áhugi hans birtist blaðamanni einnig ljóslifandi.

Hann hafi í framhaldinu, gegnum mikla hugmyndavinnu og samtöl við fólk sem hann leit upp til, farið að geta þreifað á framtíð þar sem allir gætu lært það sem hugurinn girntist með persónulegum einkakennara, sem einnig væri í stakk búinn til að veita þá hvatningu og þann stuðning, sem hingað til hefur aðeins verið á færi kennara af holdi og blóði. Hinrik sjái fyrir sér að mörk náms og atvinnulífs dofni með nýrri tækni þar sem fólk muni ekki þurfa að hverfa úr starfi til að læra, að minnsta kosti ekki í nærri öllum tilfellum.

„Að fá að vinna að slíku verkefni eru mikil forréttindi. Að láta hvern og einn nemanda fá persónulegan einkakennara er erfitt, en það er hægt og okkur er að takast það, og ég get fullyrt að sú framtíðarsýn er nær en marga grunar.

Allir að tala við tækin sín

Hinrik segist hafa verið í góðu samstarfi við Háskólann í Reykjavík frá fyrstu byrjun, þar sem fólk hafi fljótt séð möguleikana í Atlas Primer, en auk þess vinni fyrirtækið nú að spennandi tilraunaverkefni með skólanum á Bifröst, sem í stuttu máli gangi út á að gera námsefnið aðgengilegra og efla þá nemendur, sem hafi þurft að nýta sér sérúrræði, í raun gera þeim kleift að taka völdin yfir sínu eigin gagnvirka námsumhverfi og aðlaga það sínum persónulegu þörfum.

„Það að nemandinn fái meiri stjórn yfir sínu umhverfi er bylting í sjálfu sér og leyfir okkur að nálgast námsumhverfið á allt annan hátt en við gerum í dag. Því erum við ótrúlega heppin að fá Bifröst með okkur í verkefnið og ekki skemmir fyrir að fólk þar er metnaðarfullt og framsýnt, því það skiptir höfuðmáli þegar verkefnið er stórt.

Framtíðarsýn Hinriks Jósafats Atlasonar, forritara, gervigreindarsérfræðings, en kannski umfram allt kennara, undir lok fróðlegs viðtals, er að sú gjá, sem í dag sé milli nemenda og menntakerfisins, eigi aðeins eftir að breikka, einfaldlega vegna þess að nú á tímum alist allir nemendur upp í heimi, sem í grundvallaratriðum sé gjörólíkur þeim, sem menntakerfið var hannað fyrir, þar sé ekki einvörðungu á ferð sá þriðjungur, sem nýtur sérúrræða, heldur allir.

„Ungt fólk í dag þekkir ekkert annað en að geta sótt hvaða efni sem er, þegar því hentar, og allir eru meira og minna byrjaðir að tala við tækin sín.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert