Stjórn Félags bráðalækna segir Landspítalann ekki ráða við dagleg störf. Félagið krefst tafarlausra aðgerða því réttindi sjúklinga séu fótum troðin.
Stjórnin sendi heilbrigðisráðherra opið bréf í dag en þar segir að viðvarandi ófremdarástand á Landspítala hafi kristallast fyrr í vikunni þegar yfir 70 sjúklingar lágu á bráðamóttökunni. Þar af biðu 44 sjúklingar innlagnar en komust ekki á viðeigandi legudeildar sem voru fullar.
„Bráðamóttakan ræður ekki við að sinna sínu hlutverki við þessar aðstæður. Svona ástand er stórhættulegt og kemur endurtekið upp á spítala sem er endalaust keyrður á yfirálagi með vanhæfa stjórn. Framkvæmdastjórn Landspítalans hefur með ráðaleysi sínu breytt Bráðamóttökunni í legudeild. Bráðveikum sjúklingum er allt of oft sinnt af veikum mætti á göngum spítalans,“ segir í bréfinu.
Stjórnin bendir á að hið óviðunandi ástand hafi farið hríðversnandi þrátt fyrir endurteknar alvarlegar ábendingar landlæknis sem hefur skilað yfir fimm skýrslum, greinargerðum og minnisblöðum.
Stjórnin segir að Landspítalinn sé í raun stjórnlaus en þar er engin virk álagsstjórnun.
Í bréfinu segir að með aðgerðaleysi sínu og stjórnleysi hafi heilbrigðisráðherra látið ástandið viðgangast allt of lengi og að síðasta ríkissjón hafi gert ástandið verra með vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins og óskynsamlegum inngripum í kjaradeilur.
„Íslenska þjóðin lifir við þá tálsýn að á Íslandi sé heilbrigðiskerfi sem er sambærilegt við önnur kerfi í norður Evrópu. Því fer fjarri,“ segir í bréfinu.