Heildarnotkun sýklalyfja í heilbrigðiskerfinu hefur dregist saman um 30% á fjórum árum þegar tekið er mið af heildarsölu sýklalyfja hér á landi, mæld í daglegum lyfjaskömmtum á hverja 1.000 íbúa (DID).
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Þó er notkun sýklalyfja hérlendis töluvert meiri en á hinum Norðurlöndunum.
„Heildarsalan var um 24 DID árið 2017 en var komin niður í um 16 DID árið 2020. Notkunin er þó enn töluvert meiri hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri ársskýrslu embættis landlæknis um sýklalyfjanotkun árið 2020,“ segir í tilkynningunni.
Mest minnkaði sala sýklalyfja milli áranna 2019 og 2020. Í tilkynningu embættis landlæknis um skýrsluna og niðurstöður hennar segir að ástæður fyrir minnkandi notkun sýklalyfja hjá mönnum hér á landi á árinu 2020 geti verið fjölmargar.
Bent er á að árið 2020 voru viðamiklar samfélagslegar og einstaklingsbundnar sóttvarnaaðgerðir í samfélaginu vegna COVID-19. Í tilkynningunni segir að sóttvarnaaðgerðirnar hafi leitt til fækkunar á sýkingum almennt, sérstaklega öndunarfærasýkingum, sem hafi vafalaust leitt til minni notkunar sýklalyfja. Einnig hafi á undanförnum árum verið viðhafður áróður um skynsamlega notkun sýklalyfja.
Í tilkynningu embættis landlæknis segir að markvisst sé unnið að því að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og einn mikilvægasti þátturinn í þeirri vinnu sé að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja, bæði hjá mönnum og dýrum.