Rétt rúmlega 1.400 skjálftar hafa mælst frá miðnætti í námunda við Keili á Suðurnesjum. Sá stærsti mældist í nótt og var hann 3,7 á stærð. Þá mældist annar 3,5 í dag og svo mældist loks sá þriðji stærsti um tíuleytið í kvöld. Hann mældist 3,2 að stærð.
Bjarki Kaldalóns Frise, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir fjölda skjálfta vissulega mikinn, en þó hafi þeir verið fleiri í aðdraganda gossins í Geldingadölum nú í vor.
„Þetta er auðvitað mjög mikið og fólk er eðlilega að velta því fyrir sér hvort þetta sé sambærilegt því sem var í vor,“ segir Bjarki.
Hann bendir þó á að í vor hafi fjöldi skjálfta á sólarhring farið allt upp í 2.500 en segir 1.400 þó vera töluvert meira en eðlilegt þykir. „Til að setja þetta í samhengi þá erum við venjulega að tala um á bilinu tvö til fjögur hundruð skjálfta á viku, svona í eðlilegu ástandi.“
Ekki mælist þensla á svæðinu en Bjarki bendir á að ekki séu allir á sama máli hvað gæti orsakað skjálftahrinuna. „Sumir telja þetta vera skjálfta á sprungusvæði en aðrir telja að um sé að ræða kviku á ferð. Ekkert sést þó á gervitunglsmyndum enn sem komið er.“
Hann segir að lokum að íbúar höfuðborgarsvæðisins geti allt eins átt von á stórum skjálfta í nótt eins og raunin var síðustu nótt. „Við fylgjumst bara spennt með áfram. Það er bara hrina í gangi og hún tengist annað hvort kviku sem er að reyna að komast upp eða þá bara þessari sprungu sem myndaðist í vor.“