Það birtist í alvörunni englakór

Segja má að Bergrún Íris Sævarsdóttir sé kona með fortíð, enda hefur hún fengist við ýmislegt um dagana þó hún sé þekktust í dag sem margverðlaunaður barnabókahöfundur. Hún byrjaði bráðung að teikna, fór á fyrsta myndlistarnámskeiðið fimm ára gömul og átta ára var hún ákveðin í því að verða teiknari og vinna fyrir Disney, en segir að margir hafi sagt við sig að það væri ekki beinlínis vinna að vera teiknari.

Bergrún fór síðan á félagsfræðabraut í Kvennaskólanum, en skipti fljótlega á myndlistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. „Ég átti svona stund í sögutíma í Kvennó. Við vorum bara í venjulegri sögu, en kennarinn ákvað að taka einn tíma í listasögu og það birtist í alvörunni bara englakórinn og allt opnaðist fyrir mér. ég sver það, þetta var eins og í bíómynd, og ég labbaði bara lóðbeint inn á skrifstofu til námsráðgjafa og sagði: Ég þarf að skipta um skóla, ég verð að komast í eitthvað sem nærir mig.“

Að loknu námi í FG fór Bergrún svo í listfræði og tók bókmenntafræði sem aukagrein. Í framhaldi af því, svo fer hún í Myndlistaskólann í Reykjavík í alveg splunkunýtt nám sem var þá í gangi, diplómanám í teikningu sem hentaði mér rosalega vel af því mig langaði svo til að verða teiknari, iðnaðarmaður í því að teikna.“

Áður en hún varð atvinnumaður í teikningu tók sér ýmislegt fyrir hendur, var til að mynda um tíma með sjónvarpsþættina Innlit útlit á Skjá einum með Sesselju Thorberg, þar sem Bergrún vann meðal annars ýmis föndurverkefni í bílskúr föður síns, og tók einnig að sér að skreyta barnaherbergi, starfaði sem blaðakona og hélt úti hönnunarbloggi. Með tímanum fór hún að myndlýsa bækur, hefur myndlýst á sjötta tug bóka eftir ýmsa höfunda, stóran hluta af því námsbækur, og fljótlega fór hún að skrifa eigin bækur, nú síðast Kennarinn sem kveikti í, sem tyllti sér í efsta sætið á metsölulistum fyrir stuttu.

Hægt er að horfa á viðtal við Bergrúnu í Dagmáli Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert