Byggðamynstur hefur áhrif á ferðavenjur á höfuðborgarsvæðinu með svipuðum hætti og í sambærilegum borgum á Norðurlöndunum. Þeir sem búa nálægt miðbæ Reykjavíkur ferðast þannig almennt styttra og nota einkabílinn minna en þeir sem búa fjær miðbænum. Þá ýtir búseta nær miðbænum undir virka samgöngumáta. Þetta er niðurstaða viðamikillar rannsóknar hér á landi, en vísindafólkið á bak við rannsóknina segir að út frá þessu sé hægt að álykta að þétting byggðar út frá miðkjarna Reykjavíkur sé hagstæðari en uppbygging fleiri kjarna í borginni.
Rannsóknin var unnin af hópi vísindamanna á vegum Háskóla Íslands, Umhverfis- og lífvísindaháskóla Noregs og Háskólans í Poznan í Póllandi. Skoðaðar voru ferðavenjur borgarbúa og forsendur fólks fyrir vali á ferðamátum og staðsetningu áfangastaða, svo sem ferðamáta til vinnustaða. Náði rannsóknin til alls 10 þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu, en í rannsókninni var notuð aðferð sem fyrsti höfundur greinarinnar, Petter Næss, prófessor við deild borgar- og svæðisskipulags við norska háskólann, hefur þróað.
Auk Næss koma eftirtaldir vísindamenn að rannsókninni; Harpa Stefánsdóttir og Sebastian Peters, dósentar við sömu deild og Næss, Jukka Heinonen, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og Michał Czepkiewicz, fræðimaður við Háskóla Íslands og Poznan-háskóla.
Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að fólk á höfuðborgarsvæðinu byggi ákvarðanir sínar um val ferðamáta á svipuðum forsendum og annars staðar, en að aðstæður í samgöngukerfi borgarinnar hér leiði hins vegar til þess að notkun einkabíls víðast hvar uppfylli best þær forsendur sem fólk gefur sér, umfram það sem gerist í nágrannalöndunum, en svipuð rannsókn var gerð bæði í Ósló og Stafangri í Noregi og þá hefur aðferðum Næss meðal annars verið beitt í svipuðum könnunum í Kaupmannahöfn, Porto í Portúgal og Hangzhou í Kína.
Í tilkynningu vegna útgáfu skýrslunnar og birtingar í vísindaritinu Sustainability segir að nálægð við miðkjarna Reykjavíkur hafi áhrif á hvort fólk notaði einkabílinn meira og ferðaðist lengri vegalengdir á hverjum degi. Þá hefði nálægð við miðkjarna sérstaklega mikil áhrif á ferðir til og frá vinnu, en einnig á aðra áfangastaði fólks.
Þá sýndu niðurstöðurnar að búseta hlutfallslega nálægt miðkjarnanum styður fremur en annars staðar undir göngu og hjólreiðar sem samgöngumáta. Jafnframt kemur í ljós að nálægð við miðbæi annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þéttari byggð þar dregur lítillega úr akstri.
Auk kannana voru tekin dýpri viðtöl við framkvæmd rannsóknarinnar, meðal annars þar sem leitað var að skýringarþáttum fyrir annars vegar vali á samgöngumátum og hins vegar áfangastað. Þessir skýringarþættir varpa ljósi á hvers vegna vegalengdir og val á samgöngumáta byggist frekar á fjarlægð frá miðkjarna Reykjavíkur en öðrum þáttum hins byggða umhverfis. Meginskýringarþættirnir fyrir vali á samgöngumáta voru tímasparnaður, einfaldleiki og þægindi, ósk um líkamsþjálfun og aðgerð til að forðast pirring/streitu.
Haft er eftir Hörpu í tilkynningunni að þar sem einfaldast sé að komast leiða sinna á einkabíl og að það taki yfirleitt stystan tíma velji flestir einkabílinn. Í miðbænum séu vegalengdir hins vegar styttri, þjónustuframboð meira og fjölbreyttara og aðgengi fyrir einkabíla hlutfallslega síðra. Slíkt ýti undir hlutfall gangandi og hjólandi.
Þá segir Harpa að ganga og hjólreiðar séu oftast samofin ósk íbúa um líkamsþjálfun, en þegar komi að almenningssamgöngum telji fólk þær óáreiðanlegar og að þær taki of langan tíma. Geti þetta stuðlað að pirringi og streitu.
Harpa kemur inn á samanburð við rannsókn sem gerð var í Stafangri í Noregi. „Fjarlægð frá miðkjarnanum skiptir mestu máli um ferðavenjurnar, einkum vinnutengdar ferðir. Í Stafangri, sem er tvíkjarna, gætir sterkra áhrifa frá atvinnusvæðakjarna í nokkurri fjarlægð frá miðkjarnanum þannig að vegalengdir til vinnu verða styttri eftir því sem búseta er nær þessum kjarna. Hins vegar styður nálægðin við notkun einkabíls þar sem aðgengi hans er einkum gott,“
Út frá þessum niðurstöðum draga höfundar rannsóknarinnar meðal annars þá ályktun að þétting byggðar við miðkjarna Reykjavíkur sé hagstæðari fyrir sjálfbæra þróun borgarinnar frekar en að stefna á uppbyggingu fleiri kjarna í borginni. Ekki síst sé mikilvægt að staðsetja sérhæfða starfsemi í miðborginni þangað sem beina megi kerfi almenningssamgangna.
Segir Harpa að niðurstöðurnar nýtist til að geta metið megindrætti sem leiði til sjálfbærrar þróunar um samþættingu byggðar og samgangna og að með breyttu skipulagi höfuðborgarsvæðisins megi snúa því við hvaða samgöngumátar uppfylli best forsenduþættina um hagstæðasta ferðatímann og mestu þægindin. „Með því að þrengja að einkabílnum samtímis sem öðrum samgöngumátum er gert hærra undir höfði er smám saman hægt að snúa blaðinu við. Þá þarf t.d. heildarferðatími með almenningssamgöngum að vera hagstæðari heildarferðatíma með einkabíl. Heildarferðatíma almenningssamgangna má styrkja með sem styttum vegalengdum á stoppistöð, einkum við mannfreka áfangastaði, t.d. vinnustaði, auka tíðni ferða til að minnka biðtíma og setja forgangsreinar til að draga úr töfum og bæta meðalhraða. Á móti má lengja heildarferðatíma einkabíls hlutfallslega, með því t.d. að draga úr aðgengi að bílastæðum við áfangastaði, s.s vinnustaði, og fækka akreinum. Þessi leið er vel þekkt í öðrum löndum og hefur borið góðan árangur,“ er haft eftir henni.