Þétting út frá miðkjarna borgarinnar hagstæðust

Harpa Stefánsdóttir, dósent við deild borgar- og svæðisskipulags í Umhverfis- …
Harpa Stefánsdóttir, dósent við deild borgar- og svæðisskipulags í Umhverfis- og lífvísindaháskóla Noregs og Jukka Heinonen, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Byggðamynst­ur hef­ur áhrif á ferðavenj­ur á höfuðborg­ar­svæðinu með svipuðum hætti og í sam­bæri­leg­um borg­um á Norður­lönd­un­um. Þeir sem búa ná­lægt miðbæ Reykja­vík­ur ferðast þannig al­mennt styttra og nota einka­bíl­inn minna en þeir sem búa fjær miðbæn­um. Þá ýtir bú­seta nær miðbæn­um und­ir virka sam­göngu­máta. Þetta er niðurstaða viðamik­ill­ar rann­sókn­ar hér á landi, en vís­inda­fólkið á bak við rann­sókn­ina seg­ir að út frá þessu sé hægt að álykta að þétt­ing byggðar út frá miðkjarna Reykja­vík­ur sé hag­stæðari en upp­bygg­ing fleiri kjarna í borg­inni.

Rann­sókn­in var unn­in af hópi vís­inda­manna á veg­um Há­skóla Íslands, Um­hverf­is- og líf­vís­inda­há­skóla Nor­egs og Há­skól­ans í Pozn­an í Póllandi. Skoðaðar voru ferðavenj­ur borg­ar­búa og for­send­ur fólks fyr­ir vali á ferðamát­um og staðsetn­ingu áfangastaða, svo sem ferðamáta til vinnustaða. Náði rann­sókn­in til alls 10 þúsund íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu, en í rann­sókn­inni var notuð aðferð sem fyrsti höf­und­ur grein­ar­inn­ar, Petter Næss, pró­fess­or við deild borg­ar- og svæðis­skipu­lags við norska há­skól­ann, hef­ur þróað.

Auk Næss koma eft­ir­tald­ir vís­inda­menn að rann­sókn­inni; Harpa Stef­áns­dótt­ir og Sebastian Peters, dós­ent­ar við sömu deild og Næss, Jukka Hein­on­en, pró­fess­or við um­hverf­is- og bygg­ing­ar­verk­fræðideild Há­skóla Íslands, og Michał Czepkiewicz, fræðimaður við Há­skóla Íslands og Pozn­an-há­skóla.

Velja einka­bíl­inn vegna aðstæðna í sam­göngu­kerfi borg­ar­inn­ar

Fram kem­ur í niður­stöðum rann­sókn­ar­inn­ar að fólk á höfuðborg­ar­svæðinu byggi ákv­arðanir sín­ar um val ferðamáta á svipuðum for­send­um og ann­ars staðar, en að aðstæður í sam­göngu­kerfi borg­ar­inn­ar hér leiði hins veg­ar til þess að notk­un einka­bíls víðast hvar upp­fylli best þær for­send­ur sem fólk gef­ur sér, um­fram það sem ger­ist í ná­granna­lönd­un­um, en svipuð rann­sókn var gerð bæði í Ósló og Stafangri í Nor­egi og þá hef­ur aðferðum Næss meðal ann­ars verið beitt í svipuðum könn­un­um í Kaup­manna­höfn, Porto í Portúgal og Hangzhou í Kína.

Í til­kynn­ingu vegna út­gáfu skýrsl­unn­ar og birt­ing­ar í vís­inda­rit­inu Sustaina­bility seg­ir að ná­lægð við miðkjarna Reykja­vík­ur hafi áhrif á hvort fólk notaði einka­bíl­inn meira og ferðaðist lengri vega­lengd­ir á hverj­um degi. Þá hefði ná­lægð við miðkjarna sér­stak­lega mik­il áhrif á ferðir til og frá vinnu, en einnig á aðra áfangastaði fólks.

Þá sýndu niður­stöðurn­ar að bú­seta hlut­falls­lega ná­lægt miðkjarn­an­um styður frem­ur en ann­ars staðar und­ir göngu og hjól­reiðar sem sam­göngu­máta. Jafn­framt kem­ur í ljós að ná­lægð við miðbæi annarra sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu og þétt­ari byggð þar dreg­ur lít­il­lega úr akstri.

Aðstæður í samgöngukerfi borgarinnar leiða að sögn höfunda rannsóknarinnar til …
Aðstæður í sam­göngu­kerfi borg­ar­inn­ar leiða að sögn höf­unda rann­sókn­ar­inn­ar til þess að notk­un einka­bíls upp­fylli best þær for­send­ur sem fólk gef­ur sér þegar það vel­ur ferðamáta. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Auk kann­ana voru tek­in dýpri viðtöl við fram­kvæmd rann­sókn­ar­inn­ar, meðal ann­ars þar sem leitað var að skýr­ing­arþátt­um fyr­ir ann­ars veg­ar vali á sam­göngu­mát­um og hins veg­ar áfangastað. Þess­ir skýr­ing­arþætt­ir varpa ljósi á hvers vegna vega­lengd­ir og val á sam­göngu­máta bygg­ist frek­ar á fjar­lægð frá miðkjarna Reykja­vík­ur en öðrum þátt­um hins byggða um­hverf­is. Meg­in­skýr­ing­arþætt­irn­ir fyr­ir vali á sam­göngu­máta voru tímasparnaður, ein­fald­leiki og þæg­indi, ósk um lík­amsþjálf­un og aðgerð til að forðast pirr­ing/​streitu.

Haft er eft­ir Hörpu í til­kynn­ing­unni að þar sem ein­fald­ast sé að kom­ast leiða sinna á einka­bíl og að það taki yf­ir­leitt styst­an tíma velji flest­ir einka­bíl­inn. Í miðbæn­um séu vega­lengd­ir hins veg­ar styttri, þjón­ustu­fram­boð meira og fjöl­breytt­ara og aðgengi fyr­ir einka­bíla hlut­falls­lega síðra. Slíkt ýti und­ir hlut­fall gang­andi og hjólandi.

Þá seg­ir Harpa að ganga og hjól­reiðar séu oft­ast samof­in ósk íbúa um lík­amsþjálf­un, en þegar komi að al­menn­ings­sam­göng­um telji fólk þær óáreiðan­leg­ar og að þær taki of lang­an tíma. Geti þetta stuðlað að pirr­ingi og streitu.

Hag­stæðast að þétta byggð út frá miðkjarna

Harpa kem­ur inn á sam­an­b­urð við rann­sókn sem gerð var í Stafangri í Nor­egi. „Fjar­lægð frá miðkjarn­an­um skipt­ir mestu máli um ferðavenj­urn­ar, einkum vinnu­tengd­ar ferðir. Í Stafangri, sem er tví­kjarna, gæt­ir sterkra áhrifa frá at­vinnusvæðakjarna í nokk­urri fjar­lægð frá miðkjarn­an­um þannig að vega­lengd­ir til vinnu verða styttri eft­ir því sem bú­seta er nær þess­um kjarna. Hins veg­ar styður ná­lægðin við notk­un einka­bíls þar sem aðgengi hans er einkum gott,“

Út frá þess­um niður­stöðum draga höf­und­ar rann­sókn­ar­inn­ar meðal ann­ars þá álykt­un að þétt­ing byggðar við miðkjarna Reykja­vík­ur sé hag­stæðari fyr­ir sjálf­bæra þróun borg­ar­inn­ar frek­ar en að stefna á upp­bygg­ingu fleiri kjarna í borg­inni. Ekki síst sé mik­il­vægt að staðsetja sér­hæfða starf­semi í miðborg­inni þangað sem beina megi kerfi al­menn­ings­sam­gangna.

Til að snúa við blaðinu sem myndi leiða til sjálfbærrar …
Til að snúa við blaðinu sem myndi leiða til sjálf­bærr­ar þró­un­ar um samþætt­ingu byggðar og sam­gangna þarf að gera öðrum sam­göngu­mát­um en einka­bíln­um hærra und­ir höfði. M.a. með því að stytta ferðatíma al­menn­ings­sam­gangna, stytta vega­lengd­ir á stoppistöð og auka tíðni ferða. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Til að snúa við blaðinu þurfi að þrengja að einka­bíln­um

Seg­ir Harpa að niður­stöðurn­ar nýt­ist til að geta metið meg­in­drætti sem leiði til sjálf­bærr­ar þró­un­ar um samþætt­ingu byggðar og sam­gangna og að með breyttu skipu­lagi höfuðborg­ar­svæðis­ins megi snúa því við hvaða sam­göngu­mát­ar upp­fylli best for­senduþætt­ina um hag­stæðasta ferðatím­ann og mestu þæg­ind­in. „Með því að þrengja að einka­bíln­um sam­tím­is sem öðrum sam­göngu­mát­um er gert hærra und­ir höfði er smám sam­an hægt að snúa blaðinu við. Þá þarf t.d. heild­ar­ferðatími með al­menn­ings­sam­göng­um að vera hag­stæðari heild­ar­ferðatíma með einka­bíl. Heild­ar­ferðatíma al­menn­ings­sam­gangna má styrkja með sem stytt­um vega­lengd­um á stoppistöð, einkum við mann­freka áfangastaði, t.d. vinnustaði, auka tíðni ferða til að minnka biðtíma og setja for­gangs­rein­ar til að draga úr töf­um og bæta meðal­hraða. Á móti má lengja heild­ar­ferðatíma einka­bíls hlut­falls­lega, með því t.d. að draga úr aðgengi að bíla­stæðum við áfangastaði, s.s vinnustaði, og fækka ak­rein­um. Þessi leið er vel þekkt í öðrum lönd­um og hef­ur borið góðan ár­ang­ur,“ er haft eft­ir henni.

Grein­ina í heild má nálg­ast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert