Tólf börn smituð og vel á þriðja hundrað í sóttkví

Tólf börn eru smituð af Covid-19 í grunnskólum Akureyrarbæjar.
Tólf börn eru smituð af Covid-19 í grunnskólum Akureyrarbæjar. mbl.is/Sigurður Bogi

Tólf börn hafa greinst smituð af Covid-19 í grunnskólum Akureyrarbæjar og eru fleiri en 250 börn og 33 starfsmenn skólanna komin í sóttkví vegna smitanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum.

Fram kemur í tilkynningunni að skólastarf verði með eðlilegum hætti á morgun, föstudaginn 1. október, en gripið hefur verið til viðeigandi ráðstafana í öllum grunnskólum bæjarins. Þá hefur sameiginlegum viðburðum sem ekki eru hluti af daglegu skólastarfi verið frestað.

Engin fyrirmæli borist um takmarkanir á skólastarfi

Rakning vegna staðfestra smita stendur nú yfir. Þá er bent á að „hér eftir sem hingað til verði fyrirmælum rakningarteymis fylgt í hvívetna“ og að engin fyrirmæli um röskun eða takmarkanir á skólastarfi hafi borist. Hvorki frá sóttvarnayfirvöldum né frá rakningarteyminu.

Berist slík fyrirmæli verði brugðist skjótt við og upplýsingum komið hratt og örugglega á framfæri. Þá er fólk hvatt til þess að skrá sig í sýnatöku finni það fyrir einkennum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert