Aldrei sagt að fólk ætti að hætta að passa sig

Persónulegar sóttvarnir eru betri kostur en hraðpróf að sögn Guðrúnar …
Persónulegar sóttvarnir eru betri kostur en hraðpróf að sögn Guðrúnar Aspelund, sérfræðingi á sviði sóttvarna hjá Landlækni. mbl.is/Ari

Guðrún Aspelund, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis, segir smitfjölda í gær svipaðan og hefur tíðkast síðustu daga og vikur. Þó sé athugunarvert hversu mörg börn hafa greinst á Akureyri, en í gær var greint frá því að á þriðja hundrað börn væru komin í sóttkví.

„Þetta er náttúrulega mikið af krökkum sem eru ekki bólusett, geta ekki verið bólusett vegna aldurs,“ segir Guðrún en smitin á Akureyri ná inn í fjóra grunnskóla.

Þar að auki séu fleiri í sóttkví þar sem þeir smituðu voru innan um mikið af fólki, hefðu þau greinst fyrr hefði verið hægt að grípa til ráðstafana til að þau sem nú eru í sóttkví hefðu aðeins þurft að sæta smitgát.

Guðrún Aspelund, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis.
Guðrún Aspelund, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. Ljósmynd/Landlæknir

Persónulegar sóttvarnir mikilvægastar

„Við höfum nú aldrei dregið þau tilmæli til baka að fólk eigi ekki að passa sig,“ segir Guðrún, aðspurð hvort fólk þurfi að fara að passa sig betur. „Þó að bylgjan hafi farið niður þá hafa smitin ekki horfið. Þetta hefur verið ansi stöðugt undanfarið, eða frá byrjun september, það hafa verið um það bil 30 smit á dag.“

Þá þurfi fólk sem hyggst vera í fjölmenni að gæta að persónulegum sóttvörnum. Spurð hvort hraðpróf séu góð varúðarráðstöfun fyrir fólk sem hyggst kíkja út á lífið, segir hún persónulegar sóttvarnir mikilvægari.

„Það er allt í lagi að gera það en fólk þarf að muna að þetta er engin trygging. Þetta tekur bara stöðuna akkúrat á þeim tímapunkti sem þú ferð í prófið og prófin eru ekki 100 prósent. Auðvitað er eitthvað öryggi í því en maður þarf að passa sig að fara ekki að halda að það geti ekkert komið fyrir þó maður fari í próf á einum degi sem er neikvætt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert