Andlát: Snorri Baldursson

Snorri Baldursson.
Snorri Baldursson. mbl.is/Þórður Arnar

Snorri Baldursson líffræðingur lést á heimili sínu aðfaranótt miðvikudags 29. september eftir erfiða baráttu við krabbamein í höfði. Snorri fæddist 17. maí 1954 á Akureyri, sonur Þuríðar Helgu Kristjánsdóttur og Baldurs Helga Kristjánssonar. Hann ólst upp á Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit ásamt systkinum sínum, þeim Kristjáni, Sigurbjörgu, Benjamín, Guðrúnu og Fanneyju. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1974, BSc-gráðu í líffræði frá HÍ 1979 og aflaði sér kennsluréttinda í framhaldinu. Snorri tók meistaranám í plöntuvist- og plöntuerfðafræði frá University of Colorado og lauk doktorsprófi (PhD) í plöntuerfðafræði við Konunglega landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn árið 1993.

Eftir nám erlendis sinnti Snorri, jafnhliða öðrum verkefnum, rannsóknum á sviði landgræðslu og skógræktar. Sneri sér svo að stjórnunarstörfum á sviði náttúrufræða og náttúruverndar og vann mikið að þeim málum sl. tuttugu ár. Beitti sér þar fyrir náttúruvernd og undir þeim merkjum skrifaði hann greinar, bækur og sinnti ýmsum nefndar- og trúnaðarstörfum.

Á árunum 1983-1986 var Snorri var kennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla, var sérfræðingur hjá RALA og Skógrækt ríkisins um árabil og var aðalritari hjá Norðurskautsráðinu 1997-2002. Þá starfaði Snorri um skeið hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2002-2008, var þjóðgarðsvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði og formaður Landverndar 2015-2017. Þá stýrði hann auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2018 fram á þetta ár.

Árið 2014 sendi Snorri frá bókina Lífríki Íslands sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita. Í síðasta mánuði kom svo út bók Snorra Vatnajökulsþjóðgarður: Gersemi á heimsvísu. Bókin var að stofni til efni umsóknar til UNESCO um að þjóðgarðurinn kæmist á heimsminjaskrá, eins og gekk eftir árið 2019.

Nú í sumar stofnaði Snorri náttúruverndarsamtökin Skrauta. Markmið þess var verndun Vonarskarðs.

Snorri lætur eftir sig fjóra syni sem eru: Heimir, f. 1974, Narfi Þorsteinn, f. 1982, Baldur Helgi, f. 1986 og Snorri Eldjárn, f. 1988. Eftirlifandi kona Snorra er Elsa Friðrika Eðvarðsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert