„Þetta verkefni er ekki að rata á okkar borð í fyrsta skipti, því miður,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is en stjórn Félags bráðalækna sendi ráðherra í gær opið bréf um ástandið á Landspítala þar sem meðal annars segir að bráðnauðsynlegt sé að stöðva stjórnleysið á spítalanum.
„Við tökum alltaf mark á því sem að okkur er beint,“ segir Svandís en hún hélt fund í morgun með forstjóra Landspítala, landlækni og yfirlækni bráðamóttöku. „Þar ræddum við málin og fórum yfir það hvað væri verið að gera á spítalanum.“
Svandís sagðist ekki geta upplýst frekar um hvað fór fram á fundinum.
Hún bendir á skýrslu átakahóps um lausnir á þeim vanda sem birtist á bráðamóttöku Landspítala sem kom út í febrúar árið 2020. „Við fengum erlenda sérfræðinga til þess að vinna það með okkur og þar eru ellefu tillögur settar fram. Við fórum yfir sumar af þeim í morgun og könnuðum stöðuna á þeim, bæði innan spítala og utan.“
Svandís segir að málið liggi nú á borði framkvæmdastjórnar Landspítala.