Ólga er á meðal íbúa Innri-Njarðvíkur vegna áforma um öryggisvistun fyrir ósakhæfa einstaklinga í óbyggðu hverfi, Dalshverfi 3. Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir samvinnu við Reykjanesbæ um slíka starfsemi. Íbúar lýstu áhyggjum sínum af þessu í grein í Víkurfréttum.
Þorsteinn Stefánsson, formaður íbúaráðs Innri-Njarðvíkur, sagði í samtali við Morgunblaðið að greinin hafi verið skrifuð til að fylgja eftir álitsgerð til bæjaryfirvalda. Þá hafa tæplega þúsund manns skrifað nöfn sín á mótmælalista.
Íbúarnir benda m.a. á að reglur og lög sem skilgreina hlutverk og aðkomu ríkis og sveitarfélaga að framkvæmd öryggisvistunar fyrir ósakhæfa einstaklinga séu ekki til. Ekki heldur ákvæði um hvernig tryggja eigi öryggi íbúa í nágrenninu.
„Við höfum ekki fengið neina kynningu, sem okkur finnst með miklum ólíkindum og ekki verið haft neitt samráð við íbúana,“ sagði Þorsteinn. „Reykjanesbær á staði sem henta betur en þessi. Við viljum ekki hafa þetta í íbúðahverfum. Fólk hefur sloppið úr svona öryggisvistun og jafnvel ráðist á annað fólk og börn. Þetta getur hugsanlega líka rýrt fasteignaverð á svæðinu.“
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði að félagsmálaráðuneytið hafi leitað eftir samstarfi í fyrravor. Rætt var um að þessu gætu fylgt 30-40 ný störf en þá var 25% atvinnuleysi á svæðinu. „Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vinna málið áfram og sjá hvernig það þróaðist,“ sagði Kjartan.
Í sumar sótti ráðuneytið um lóð. Sett voru skilyrði um að hún væri í nýju hverfi svo íbúar sem á eftir kæmu vissu að slík starfsemi væri fyrirhuguð þar. Einnig væri hún nálægt almenningssamgöngum og innan vissrar fjarlægðar frá heilbrigðisstofnun og löggæslu. Tillaga er um lóð í Dalshverfi 3.
„Það er ekki búið að samþykkja aðalskipulagið og ríkið hefur ekki kynnt þetta vegna þess að undirbúningi ýmissa formsatriða er ekki lokið. Hvorki bæjaryfirvöld eða íbúarnir hafa fengið skýra sýn um hvað standi til,“ sagði Kjartan. „Við höfum óskað eftir því að ráðuneytið komi og kynni þessi áform fyrir stjórn íbúaráðsins og bæjarstjórn. Við erum að finna tíma fyrir kynningarfund.“ Vonast er til að fundurinn verði haldinn í næstu eða þarnæstu viku.
Kjartan sagði skiljanlegt að áformin veki ótta því óheppileg atvik hafi komið upp þar sem svona starfsemi er. Þau heyra þó til undantekninga. Hann benti á að ósakhæfir einstaklingar séu vistaðir á stofnunum í næsta nágrenni við íbúðabyggð, án þess að vandræði hafi hlotist af.